Erlent

Missti allt eftir sýruárás og árásarmennirnir ganga lausir

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar

Sonali Mukherjee hefur farið í 27 lýtaaðgerðir á andliti, jafnmargar og árin sem hún hefur lifað, en fyrir tíu árum síðan helltu þrír menn í borginni Delí á Indlandi sýru yfir andlit hennar.

Mennirnir þrír, sem voru skólafélagar Mukherjee, höfðu áreitt hana en hún ekki virt þá viðlits. Þeir gripu því til hótana og sögðust ætla að „eyðileggja“ hana, en Mukherjee tók hótunum þeirra með fyrirvara. Þeir réðust síðan á hana þar sem hún lá sofandi á þaki húss síns, og helltu yfir hana sýru.

„Það eina sem ég fann var gríðarlegur sársauki,“ sagði Mukherjee í viðtali við CNN. „Það var eins og einhver hefði hent mér á bál.“

Mukherjee blindaðist við árásina og eyru hennar brunnu af. Andlit hennar bráðnaði, og náði bruninn inn að hauskúpu.

Misstu allt

Mennirnir fengu tveggja ára fangelsisdóm fyrir árásina. Mukherjee áfrýjaði dómnum en málið hefur ekki hlotið endurupptöku.

„Faðir minn eyddi hverri krónu, og seldi land okkar og gull til að borga lögfræði- og sjúkrakostnað í von um að réttlætið næði fram að ganga, en þegar upp er staðið höfum við misst allt á meðan mennirnir ganga lausir.“

Nýlega voru samþykkt lög á Indlandi sem kveða á um harðari refsingar við sýruárásum, og geta árásarmenn nú verið dæmdir til allt að ævilangrar fangelsisvistar fyrir slíka glæpi. Nýju lögin þykja þó ólíkleg til þess að hafa áhrif á mál Mukherjee.

Mikið hefur verið fjallað um ofbeldi gegn konum á Indlandi eftir hópnauðgun sem var framin í strætisvagni í Delí rétt fyrir áramót. Árásin endaði með því að þolandinn, hin 23 ára Jyoti Singh, lést af sárum sínum.

Umfjöllun CNN um mál Sonali Mukherjee má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Vandinn sagður rista djúpt

Tíðar fréttir af kynferðisárásum á Indlandi hafa vakið óhug og athygli víða. Indversk réttindasamtök segja lítið hafa breyst þrátt fyrir umfjöllunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×