Innlent

Risastórt grjót fyrir utan Alþingi - fleygur rekinn í steininn

Eins og sést á myndinni er grjótið nokkuð mikið um sig.
Eins og sést á myndinni er grjótið nokkuð mikið um sig. Mynd / GVA
Það hafa eflaust einhverjir rekið upp stór augu þegar þeir komu auga á risastórt grjót sem stendur á Austurvelli fyrir framan Alþingi. Um er að ræða listaverkið Svarta keilan, minnisvarði um borgaralega óhlýðni, sem samanstendur af 180 senímetra háum steindranga. Um er að ræða gjörning á vegum spænska andófslistamannsins Santiago Sierra.

Gjörningurinn felst í því að reka tæplega hálfs metra svarta stálkeilu í bjargið og framkalla þannig varanlega sprungu í það. Með gjörningnum vill Sierra minna á mikilvægi borgaralegra réttinda í lýðræði og þar með talið rétt þegna til að neita því að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda. Keilan mun standa áfram í steininum en sprungunni er ætlað að sýna þau áhrif sem einstök mótmæli geta haft.

Á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur kemur fram að keilan sjálf vísi í svarta keilulaga hatta sem sakfelldir einstaklingar voru látnir ganga með til háðungar af rannsóknaréttinum á 12. öldinni.

Á minnisvarðanum verður komið fyrir skilti sem á stendur á íslensku og ensku setning úr „Yfirlýsingu um réttindi manna og borgara" sem voru birt sem formáli að stjórnarskrá sem franska þingið samþykkti árið 1793:

„Þegar ríkisstjórn brýtur á rétti þegnanna, þá er uppreisn helgasti réttur og ófrávíkjanlegasta skylda þegnanna sem og hvers hluta þjóðarinnar."

Gjörningurinn fer fram á sama tíma og þingheimur tekst á um tillögu Sjálfstæðisflokksins um að afturkalla ákæru á hendur Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Fyrir áhugasama þá mun Santiago framkvæma gjörninginn sjálfur klukkan eitt, en hann er heimsþekktur listamaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×