Tíska og hönnun

Skartgripir fyrir vandláta

MYNDIR / NOX
Nox er nýtt merki sem gullsmiðurinn og skartgripahönnuðurinn Jóhannes Ottósson hefur unnið að í að verða þrjú ár. Fyrstu tvær skartgripalínurnar hans eru komnar í sölu en hann lýsir þeim sem "alvöru skarti fyrir alvöru fólk".

"Önnur línan er kvenmannslína og heitir Frostrósir. Hún samanstendur af eyrnalokkum og hálsmeni. Fallegir hlutir fyrir fallegar konur.

Í hinni línunni, sem heitir Vættir, eru fjórir hringar. Þeir eru fyrir stóru herrana sem eru ekki hræddir við að sýna styrk sinn og mikilmennsku með alvöru skarti," segir Jóhannes.

Skartgripirnir koma allar í sérsmíðuðum öskjum og ekkert er til sparað í umgjörð skartgripanna. Útvaldar verslanir fá vörurnar í sölu, svo sem stórfyrirtæki á borð við Epal, Ita og Reykjavík Walk en Jóhannes stendur í viðræðum við fleiri staði sem hann getur ekki greint frá strax.

"Nox er merki hinna vandlátu, þar sem standardinn er hár og ekkert er til sparað. Skartgripirnir er einungis unnir úr hágæða málmum og eðalsteinum," segir Jóhannes. Hann er aldeilis enginn nýgræðingur í bransanum og leggur mikið upp úr vönduðum vörum og fallegu handbragði.

"Árið 2001 flutti ég til Kaupmannahafnar, þar sem ég fór í grunndeild í gullsmíði við Københavns tekniske skole og vann með skólanum hjá gullsmiðnum Ruben Svart. Árið 2002 fékk ég svo samning hjá Ole Lynggaard sem er stærsti gullsmiður í Skandinavíu og hefur unnið mikið fyrir dönsku konungsfjölskylduna.

Eftir sveinspróf haustið 2005, flutti ég til Flórens á Ítalíu og var þar í skartgripahönnunarnámi í sjö mánuði við Alchinía nýlistaskólann. Ég fór svo aftur til Danmerkur um sumarið 2006 og þá um haustið tók ég þátt í Danmerkur meistarakeppninni í gullsmíði og aftur boðin vinna hjá Ole Lynggaard," segir Jóhannes. Hann flutti aftur til Íslands árið 2010 og hefur meðal annars unnið í þrígang með Sigrúnu Lilju hjá Gyðja Collection.

"Nýlistin hefur alltaf heillað mig og eru skemmtilegstu verkefnin þau þegar ég fæ færi á að blanda saman nýlist og smíði."

Facebook-síða Nox

Heimasíða Nox








Fleiri fréttir

Sjá meira


×