Innlent

Tugmilljóna dósasvindl á ári

Neytendur og framleiðendur drykkja í skilaskyldum umbúðum snuða Endurvinnsluna árlega um tugi milljóna króna og hefur svindlið farið vaxandi.

Fyrirtækið áformar nú að tæknivæða móttöku umbúða til að bregðast við svindlinu, og íhugar að segja upp samningi við Sorpu um móttöku umbúða.

Algengt virðist að þeir sem skila inn dósum og flöskum á endurvinnslustöðvar ýki fjölda umbúðanna sem þeir skila, og komist upp með það, segir Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar.

Þá hafa drykkjarframleiðendur orðið uppvísir af því að segjast framleiða mun færri umbúðir en þeir gera í raun og veru, og þurfa þar af leiðandi að greiða mun minna fyrir endurvinnslu umbúðanna en þeir ættu að gera, segir Helgi.

Hann segir stóra framleiðendur á borð við Vífilfell og Ölgerðina þrýsta mjög á að við þessu verði brugðist. Hann segir það skekkja samkeppnisstöðuna ef eitt fyrirtæki borgi skilvíslega 14 krónur á hverja dós eða flösku, en annað borgi mun lægri upphæð.

Endurvinnslan kannar nú hvernig hægt sé að bregðast við svindlinu. Hingað til hefur almenningur getað komið með umbúðir á endurvinnslustöðvar Sorpu, en nú er í skoðun að hætta því samstarfi, segir Helgi.

Hann segir Endurvinnsluna hafa áhuga á því að nýta sér tæknina til að bregðast við stöðunni. Með því að koma upp vélum til að taka á móti umbúðum megi slá tvær flugur í einu höggi, segir Helgi. Í fyrsta lagi geti neytendur ekki svindlað á vélunum. Í öðru lagi lesi vélarnar strikamerki á umbúðunum, og því hægt að halda utan um fjölda umbúða sem stafi frá hverjum framleiðanda.

Þetta myndi hins vegar óhjákvæmilega þýða að tekið verði á móti umbúðunum á færri stöðum en nú er gert, segir Helgi. Lítill áhugi er á því að fara sömu leið og í Skandinavíu, þar sem verslanir eru skyldaðar til að taka á móti umbúðum, enda kostnaðurinn við það kerfi gríðarlegur, segir Helgi.

Hann segir að tekin verði ákvörðun um breytingar á móttöku umbúða á næstunni.

Einnig stendur til að breyta lögum sem skylda framleiðendur drykkjarvara til að standa straum af kostnaði við endurvinnslu þeirra, segir Helgi. Hann segir viðurlög við svindli framleiðenda engin, og því þurfi að breyta.- bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×