Innlent

Afskriftir hjá Íbúðalánasjóði hafnar

Símon Birgisson skrifar
Um fimmtán hundruð manns hafa sótt um að nýta sér 110 prósent leiðina svokölluðu hjá Íbúðalánasjóði. Alþingi samþykkti nýverið lögin og ganga nú fasteignasalar um borgina og verðmeta húsnæði þeirra sem skulda meira en þeir eiga.

Lögin um hundrað og tíu prósent leiðina voru samþykkt á Alþingi í lok síðasta mánaðar. Íbúðalánasjóður gerir ráð fyrir að afskriftir á lánum einstaklinga vegna úrræðisins nemi um 20 milljörðum í ársreikningum ársins 2010 en heildarafskriftarþörf sjóðsins verði samtals 36,6 milljarðar á árinu.

Að sögn starfsmanna Íbúðalánasjóðs er mikið að gera þessa dagana. Búið er að afgreiða fyrstu málin og búist er við að hafist verði handa við að afskrifa lán einstaklinga næstu vikur.

Ferlið gengur þannig fyrir sig að fólk skráir sig á netinu. Skila þarf staðfestingu á skattaframtali og upplýsingum um lánin og til að komast á umsóknarsíðuna sjálfa þarf veflykil frá ríkisskattstjóra eða rafræn skilríki sem um 80 þúsund Íslendingar eru komnir með.

Samkvæmt lögunum hafa einstaklingar rétt á þessu úrræði ef uppreiknuð staða veðkrafna, og er þá miðað við dagsetninguna 1. janúar 2011, sé umfram 110% af verðmæti fasteignarinnar. Heimilt er að afskrifa 4 milljónir hjá einstaklingum og allt upp í 7 milljónir hjá hjónum. Greiðslubyrði lántakanda vegna kröfunnar verður aldrei lægri en nemur 18% af samanlögðum tekjum. Þessi heildarfjárhæð getur þó ekki orðið meiri en 15 milljónir hjá einstaklingum og 30 milljónir hjá hjónum.

Þegar umsókn þín um 110% leiðina er samþykkt sendir Íbúðalánasjóður löggildan fasteignasala á heimili þitt sem verðmetur eignina. Miðað við þann fjölda sem sótt hefur um afskriftir er ljóst að fasteignasalar hafa nú nóg að gera.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×