Innlent

Mikilvægt að gera upp Íraksmálið

Það er kominn tími á að við áttum okkur á því hvernig sú ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak var tekin, hver tók hana, með hvaða hætti og af hverju. Þetta segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Vaxandi áhugi er meðal þingmanna á að rannsóknarnefnd verði skipuð um aðdraganda þess að Ísland lýsti fyrir stuðningi við innrásina í Írak árið 2003, en sú ákvörðun hefur verið umdeild allar götur síðan. Munu Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ögmundur Jónasson, væntanlega ásamt fleiri þingmönnum, leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi í byrjun vikunnar.

„Við erum að gera margt upp þessa dagana Íslendingar. Þetta er mál sem hefur legið á mér lengi og meirihluta þjóðarinnar og mér finnst einfaldlega kominn tími á að við áttum okkur á hvernig þessi ákvörðun var tekin, aðdragandann, hverjir tóku hana, með hvaða hætti og af hverju," segir Steinunn Valdís.

Steinunn Valdís vill að nefndin verði þingmannanefnd enda eigi þingið sjálft að axla ábyrgðina og fara yfir málið á eigin spýtur.

Í yfirlýsingu sem Halldór Ásgrímsson sendi frá sér árið 2005 segir að í kjölfar ríkisstjórnarfundar 18. mars 2003 hafi hann og

þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, ákveðið að styðja aðgerðir í Írak undir forystu Bandaríkjamanna og Breta.

Hvað finnst þér vanta upp á það sem hefur komið fram í málinu nú þegar? „Mér finnst í raun allt vanta upp á borðið í þessu málum. Það þarf að fá öll gögn upp borðið. Það þarf að kalla þá aðila fyrir sem bera ábyrgð á því. Ég tel að þetta eigi að fara fram fyrir opnum tjöldum þannig að almenningur geti fylgst með. Við eigum rétt á því að vita og átta okkur á því af hverju þessi ákvörðun var tekin ekki síst til þess að við getum lært af mistökunum og séð til þess að svona gerist ekki aftur," segir Steinunn Valdís.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×