Innlent

Birkir Jón: Þurfum að horfa til framtíðar

Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson. Mynd/Stefán
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir nýja efnahagsspá Arion banka í ósamræmi við spá Seðlabankans. Hann hefur óskað eftir því að fulltrúar bankana verði kallaðir á fund efnahags- og skattanefnd Alþingis til að fjalla um spárnar.

Birkir Jón bendir á að samkvæmt efnahagsspá Arion banka muni gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins ekki duga fyrir afborgunum af erlendum skuldum. „Þetta er ekki í takt við það sem Seðlabankinn hefur haldið fram og þess vegna finnst mér það vera skylda okkar þingmanna að kalla þessa aðila til fundar til þess að fara yfir spá Arion banka og fá annars vegar viðbrögð frá Seðlabankanum og ríkisstjórninni hins vegar um framhaldið.“

Birkir segir jafnframt að ef spá Arion banka reynist rétt þurfi alþingismenn að taka höndum saman, þvert á alla flokka. „Fyrst og fremst það sem við þurfum að fara að gera er að horfa til lengri framtíðar og fara að gera áætlanir hvernig við ætlum að reka íslenska þjóðarbúið. Það er það sem skiptir máli og vonandi verður þessi fundur þá einhver liður í að hefja slík vinnubrögð.“

Birkir Jón segir hins vegar ekki auðvelt að meta hvorri spánni Íslendingar eigi frekar að treysta. Því hafi hann óskað eftir því að fulltrúar Seðlabankans og Arion banka mæti fyrir nefndina.

„Við höfum nú séð að það sem sem hefur komið frá Seðlabanka Íslands eða ríkisstjórninni hefur aldeilis ekki verið óskeikult á undanförnum tveimur til þremur árum.“

Varaformaður segir það sama eiga við um viðskiptabankanna. „Það er okkar að vega og meta og það er líka ábyrgðarhluti að neita að horfast í augu við raunuveruleikann ef þetta er sá raunveruleiki sem blasir við okkur.“

Þá segist Birkir Jón vera viss um að formaður efnhags- og skattanefndar muni taka vel í þessa beiðni sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×