Innlent

Byltingar þörf til að takast á við kreppu

Auðlindir sem þarf til að framleiða mat eru af skornum skammti og ræktarland fer minnkandi. Í ástandinu felast þó tækifæri, segir Cribb. fréttablaðið/valli
Auðlindir sem þarf til að framleiða mat eru af skornum skammti og ræktarland fer minnkandi. Í ástandinu felast þó tækifæri, segir Cribb. fréttablaðið/valli
„Eftirspurn eftir mat er að verða meiri en framboðið. Undanfarin tíu ár hefur verið framleitt minna af fæðu en þörf er fyrir,“ segir Julian Cribb, prófessor í miðlun vísindalegrar þekkingar. Cribb skrifaði bókina The Coming Famine – The Global food crisis and what we can do to avoid it, eða Hungursneyðin yfirvofandi – alþjóðlega matarkreppan og hvað við getum gert til að forðast hana. Cribb heldur fyrirlestur í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar klukkan tólf í dag.

Fólksfjölgun og hækkandi tekjur hjá fólki í Kína, Indlandi og Brasilíu, svo dæmi séu tekin, eru meðal ástæðna fyrir því að eftirspurn eftir mat mun tvöfaldast fyrir árið 2060. „En á sama tíma er allt sem notað er til að framleiða matinn, til dæmis landið, vatn, olía, áburður, tæknin, fiskurinn, stöðugt loftslag, allt þetta er að klárast. Geta okkar til að búa til mat fer minnkandi og við verðum að beina sjónum okkar að þessu vandamáli núna. Ef við bregðumst ekki við snemma er illt í efni, og það er engin skyndilausn til.“

Cribb segir þó að til þessarar kreppu muni ekki koma nema ekkert verði aðhafst.

„Manneskjan er ekki þannig. Það felast mikil tækifæri og atvinnumöguleikar í þessu. En það þarf að byrja snemma.“

Eitt prósent af ræktarlandi tapast á hverju ári og því þarf að framleiða tvöfalt meiri mat á helmingi minna landsvæði um miðja öld. „Þetta er meiriháttar mál og tæknilega mjög erfitt. Við þurfum að gera þrennt. Við þurfum að bylta landbúnaðarkerfinu og matarframleiðslu, við þurfum að bylta mataræði okkar og við þurfum að bylta borgunum. Í nútímaborgum er allt að helmingi matar hent í ruslið, og næringarefnin fara í súginn. Slík efni verða mjög dýr í framtíðinni. Við getum endurunnið þau.

Annað sem við þurfum eru nýir orkugjafar. Landbúnaður er knúinn af olíu og ef hún verður mjög dýr verður maturinn það líka.“

Cribb segir að áherslan hafi verið tekin af fæðuöryggismálum víða. Fólk finni aðeins fyrir hækkandi matarverði. Hann er þeirrar skoðunar að fólk þurfi að sætta sig við hærra matarverð. „Það gæti kostað einn flatskjá á hverjum fimm árum, þetta eru ekki svo miklir peningar. Fólk verður að fara að borða með tilliti til sjálfbærni og gera bændum kleift að varðveita auðlindirnar, vatnið, jarðveginn og landsvæðið.“ Verð sem bændur fái núna fyrir afurðir sínar neyði þá til að ofnýta þessar auðlindir. thorunn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×