Innlent

Farþegar í Nuuk grétu í flugstöðinni

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Farþegi í flugvélinni sem brotlenti í Nuuk á Grænlandi í gær segir farþegum hafa verið mjög brugðið þegar inn í flugstöðina var komið. Vélin var flutt af flugbrautinni nú síðdegis.

Dash átta flugvél Flugfélags Íslands sem brotlenti í Nuuk á Grænlandi í gær er mikið skemmd. Hægri hjólastellið er brotið, hægri hreyfillinn ónýtur og hægri vængendinn skemmdur.

Jónas Þór Sigurgeirsson, sem var um borð í flugvélinni þegar hún brotlenti, segir höggið þó ekki hafa verið þungt.

Hann segir farþega vélarinnar hafa verið yfirvegaða þegar gengið var frá borði. Jónas segir fólk þó hafa grátið eftir slysið þegar í flugstöðina var komið.

Í dag var unnið að því að koma vélinni af slysstað eins og sjá má á þessum myndum. Rannsóknarnefnd flugslysa Danmerkur vinnur nú að rannsókn málsins en hún fer með málið samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Hin íslenska rannsóknarnefnd flugslysa hefur þó skipað trúnaðarfulltrúa við rannsóknina og tekur hann þátt í rannsókninni ásamt íslenskum ráðgjöfum.

Flugvöllurinn í Nuuk var lokaður í allan dag en ekki var talið öruggt nota völlin meðan vélin sat ennþá skemmd utan brautarinnar.

Flugfélag Íslands gat því ekki komið annarri flugvél til Grænlands í dag en í samtali við fréttastofu segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, að stefnt sé að því að fljúga annarri vél til Grænlands á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×