Innlent

Matthías var í bústaðnum í nokkra daga

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Matthías Máni.
Matthías Máni.

Matthías Máni sem strauk af Litla-Hrauni hefur enn ekki verið yfirheyrður um flóttann en gert er ráð fyrir að gera það á morgun. Eigandi sumarbústaðar sem hann dvaldi í telur hann hafa verið þar í nokkra daga.



Eftir að lögregla sótti Matthías Mána á Ásólfsstaði í Þjórsárdal þar sem hann gaf sig fram, á aðfangadag, var hann fluttur beint á Litla-Hraun. Við komuna þangað var hann settur í einangrun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur hann enn ekki verið yfirheyrður um flóttann en til stendur að gera það á morgun. Þá ætti að fást betri mynd á það hvað hann hafðist við alla þá viku sem leitað var að honum.



Lögregla hefur hins vegar tekið skýrslu af eiganda riffilsins sem Matthías var með þegar hann gaf sig fram. Matthías tók riffilinn úr sumarbústað mannsins. Eigandinn bústaðarins, sem er í uppsveitum Árnessýslu, sagði í samtali við fréttastofu í dag að bústaðurinn væri nokkuð einangraður. Hann segir fjölskylduna hafa dvalið þar þremur dögum fyrir strokið og þakka fyrir að hafa ekki komið þangað á meðan Matthías hafðist þar við. Hann segir að Matthías hafi spennt hurðina upp en að mestu leyti gengið vel um. Sjá megi ummerki um að hann hafi eldað sér og horft á sjónvarp. Miðað við umganginn telur hann að Matthías hafi hafst þar við í nokkra daga. Bústaðurinn sé heilsársbústaður, upphitaður og með rennandi vatni og þar sé alltaf nokkuð af þurrmat.



Fangelsismálayfirvöld hafa farið yfir verklagsreglur í kjölfar stroksins og er von á skýrslu málið á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×