Enski boltinn

Núñez meiddist gegn Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki með Úrúgvæ í komandi verkefni.
Ekki með Úrúgvæ í komandi verkefni. EPA-EFE/ASH ALLEN

Darwin Núñez, framherji Liverpool, hefur dregið sig úr landsliðshópi Úrúgvæ fyrir komandi verkefni eftir að hafa meiðst aftan í læri í 4-3 tapi Liverpool á Old Trafford um helgina.

Liverpool mætti erkifjendum sínum Manchester United í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Fór það svo að Man United hafði betur í hádramatískum leik sem réðst undir lok framlengingar.

Hinn 24 ára gamli Núñez spilaði allar 120 mínúturnar í leiknum og það virðist hafa verið of mikið. Hann er meiddur aftan í læri og hefur dregið sig úr landsliðshópi Úrúgvæ sem leikur tvo vináttuleiki í Evrópu í komandi landsleikjaglugga.

Núñez hefur áður glímt við meiðsli aftan í læri á þessari leiktíð og því fagnar félag hans eflaust því að hann fái verðskuldaða pásu fyrir lokasprett ensku úrvalsdeildarinnar. Þar er Liverpool í harðri baráttu við Manchester City og Arsenal um titilinn.

Úrúgvæinn hefur spilað vel á leiktíðinni þrátt fyrir að nýta dauðafæri sín illa. Hann hefur skorað 17 mörk til þessa í öllum keppnum og gefið 12 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×