Handbolti

Hand­boltaparið flytur suður að tíma­bilinu loknu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur og Rut Arnfjörð við undirskriftina hjá KA og KA/Þór árið 2022. Þá skrifuðu þau undir tveggja ára samning sem rennur út nú í sumar.
Ólafur og Rut Arnfjörð við undirskriftina hjá KA og KA/Þór árið 2022. Þá skrifuðu þau undir tveggja ára samning sem rennur út nú í sumar. KA

Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir flytja suður til Reykjavíkur í sumar, eftir að tímabilinu í Olís-deildum karla og kvenna í handbolta er lokið. Frá þessu greinir Handbolti.is.

Ólafur og liðsfélagar hans í KA eru sem stendur að reyna tryggja sæti sitt í úrslitakeppni Olís-deildar karla en liðið er með 16 stig í 7. sæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Rut Arnfjörð er sem stendur í fæðingarorlofi og hefur ekki spilað á leiktíðinni. Sést það ef til vill hvað best á því að KA/Þór komst ekki í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna.

Rut hefur verið máttarstólpi í liði Akureyringa undanfarin ár og var allt í öllu þegar liðið varð Íslandsmeistari vorið 2021. Þá hefur hún leikið 115 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Í frétt Handbolti.is um málið kemur fram að óvíst sé „hvort, og ef þá, með hvaða liðum Rut og Ólafur leika á höfuðborgarsvæðinu á næsta keppnistímabili.“

Ólafur er uppalinn hjá FH í Hafnafirði en hefur einnig spilað með Stjörnunni sem og erlendis sem atvinnumaður. Rut spilaði á sínum tíma með HK sem og atvinnukona í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×