Innlent

Telja líkur á öðru eld­gosi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Sundhnúkagígum og Grindavík í fjarska.
Frá Sundhnúkagígum og Grindavík í fjarska. Vísir/Vilhelm

Áframhaldandi landris eykur líkur á öðru kvikuhlaupi þó eldgos sé yfirstandandi Meiri óvissa um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að Almannavarnir hafi aukið viðbúnað sinn vegna hættunnar á öðru eldgosi, til viðbótar við það sem nú er í gangi.

„Við búumst við því að eldgos geti hafist þá og þegar,“ segir Hjördís.

Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða. Frá 5. apríl hefur einungis gosið úr einum gíg og hraunflæði úr honum haldist nokkuð stöðugt síðan þá, rúmlega þrír rúmmetrar á sekúndu. Áfram er hætta á gasmengun og er fólki bent á að fylgjast með upplýsingum um loftgæði og spá um gasdreifingu.

Haldi kvikusöfnun undir Svartsengi áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi.

Eftir að fjórða eldgosið hófst þann 16. mars hægði landris verulega á sér fyrst um sinn og nánast stöðvaðist. Það gaf til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi og uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni.

Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi.

Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því er meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins.

Rætt verður við Víði Reynisson um stöðu mála í fréttum Stöðvar 2 í opinni dagskrá klukkan 18:30.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×