Handbolti

Elvar Örn öflugur og Melsun­gen stefnir á Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Örn átti sannarlega sinn þátt í sigri kvöldsins.
Elvar Örn átti sannarlega sinn þátt í sigri kvöldsins. Handball World

Melsungen vann Lemgo með minnsta mun í þýsku úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var æsispennandi allt til loka en á endanum hafði Íslendingaliðið betur. Elvar Örn Jónsson átti virkilega góðan leik í liði Melsungen.

Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en heimamenn náðu í kjölfarið góðum kafla og leiddu um stund með þremur mörkum. Gestirnir voru þó aldrei langt undan en á endanum munaði tveimur mörkum í hálfleik, staðan þá 13-11.

Melsungen byrjaði síðari hálfleik af gríðarlegum krafti og skoraði fyrstu þrjú mörkin, þar af var Elvar Örn með tvö. Lemgo er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin og minnkaði muninn niður í aðeins eitt mark þegar rúmlega tólf mínútur lifðu leiks.

Þegar skammt lifði leiks tókst Lemgo að jafna metin í 25-25 en Melsungen átti lokaorðið sem og lokamarkið, lokatölur 26-25 Melsungen í vil.

Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson kom ekki við sögu að þessu sinni.

Sigurinn þýðir að Melsungen er í 4. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 35 stig að loknum 26 leikjum, tveimur stigum á eftir Flensburg sem á tvo leiki til góða. Efstu tvö lið Þýskalands fara í Meistaradeild Evrópu og næstu þrjú í Evrópudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×