Fastir pennar

Dómskerfi nr. 2

Pawel Bartoszek skrifar
Það fyrirkomulag sem viðhaft er við ákærur og dómsmál á hendur ráðherrum hérlendis og í nokkrum nágrannalanda virkar hvorki sérlega rökrétt né raunar sérlega geðslegt. Hvorki ákæruferlið né dómsferlið samræmast hugmyndum um hvernig best skuli staðið að slíkum málum innan réttarkerfisins. Betra væri að hafa eitt dómskerfi í landinu en tvö.

Það vald að ákæra ráðherra er nú lagt í hendur þingmönnum, sem standa þá frammi fyrir því að ákveða hvort fyrrverandi samstarfsfélagar, samherjar og andstæðingar þeirra eigi að vera sóttir til saka fyrir embættisbrot og hugsanlega fara í fangelsi. Það ber ekki að skilja sem svo að þeim sé að slíkri ákvarðanatöku einhver vorkunn; þingmönnum er ekki vorkunn að neinu, þeir velja sér starfsvettvang. Hins vegar má eðlilega efast um hvort þingmenn séu til þessa verks hæfastir og líklegasta svarið við þeirri spurningu er nei. Á sama hátt og ef sækja ætti mál á hendur dómara væri það vond hugmynd að láta kaffistofufélaga hans til margra ára dæma í málinu.

Mun hyggilegri leið væri að láta þingið eða nefnd á þess vegum heimila, eða jafnvel fyrirskipa, rannsókn á því hvort ráðherra hefði brotið af sér í starfi. Það væri svo í höndum sérstaks saksóknara, eða jafnvel einfaldlega ríkissaksóknara, að rannsaka málið og höfða málsókn ef hann sæi ástæðu til þess. Það verður nefnilega ekki vel séð hvers vegna þörf er á sérstöku ákæruferli og ákæruembætti þegar kemur að brotum tiltekinna embættismanna ríkisins. Ekki þykir ástæða til að búa til sérstakt réttarkerfi fyrir þingmenn eða dómara. Enda má eðlilega spyrja sig hvort slík ad-hoc saksóknaraembætti séu virkilega líklegust til að ná þeim árangri sem af þeim er ætlast.

Með nákvæmlega sama hætti má velta upp þeirri grundvallarspurningu hvort hyggilegt sé að koma upp sérdómstól, úrskurðum hvers verður ekki áfrýjað, fyrir þessa einu tegund dómsmála. Það er vart nauðsynlegt.

Venjulega dómskerfið okkar hefur getað dæmt þingmenn til fangelsisvistar, vikið dómurum úr embætti og úrskurðað að lög sem Alþingi hefur sett brjóti í bága við stjórnarskrá. Ekki verður séð hvers vegna það ætti ekki að ráða við að skera úr um hvort ráðherrar hafi brotið lög um ráðherraábyrgð.

Af fimmtán dómurum Landsdóms eru sjö hæstaréttardómarar og átta kjörnir af Alþingi. Þessi uppsetning á sér, líkt og svo margt annað í íslenskri stjórnskipan, norræna fyrirmynd. Danski Ríkisrétturinn er skipaður þrjátíu dómurum, þar af er helmingur þingkjörinn. Þetta fyrirkomulag á rætur sínar að rekja til konungsveldisins og átti á sínum tíma að styrkja vald þingsins gagnvart embættismönnum konungs. Í seinni tíð hafa þau rök verið notuð að þingkjörnu fulltrúarnir geti lagt mat á hinar pólitísku hliðar málsins þegar meta á hvort ráðherrar hafi brugðist skyldum sínum. Þeir séu því svipaðir kviðdómendum eða sérfróðum meðdómsmönnum. Það verður þó ekki séð að í gegnum tíðina hafi þeir sem valdir hafi verið í Landsdóm endilega búið yfir mikilli reynslu af stjórnmálum eða haft sérstaka innsýn í pólitísk störf ráðherra. Og án þess að það sé eini mælikvarðinn þá virðist ekki vera sem sakborningurinn í Landsdómi virðist telja að þingkjörnu fulltrúarnir tryggi sérstaklega réttaröryggi sitt.

Dómum Landsdóms verður ekki áfrýjað, sem er ekkert sérstakt út frá mannréttindasjónarmiðum. Raunar ber að taka það fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt á þá leið að landsdómsfyrirkomulagið eins og það er sett upp í Danmörku gangi upp.

En þótt eitthvað haldi vatni þýðir það ekki að það sé gott. Eða að ekki sé hægt að gera það sama mun betur.

Ekkert er athugavert við það að sett séu lög um ábyrgð ráðherra eða annarra embættismanna og að fyrir brot á þeim lögum geti menn verið sóttir til saka og dæmdir. Hins vegar væri hreinlegra og heppilegra að um þau mál giltu sömu reglur og um brot á öllum öðrum lögum, þannig að rannsakað, saksótt væri innan sama réttarkerfisins og ef um um önnur brot væri að ræða. Það þarf ekki sérstakt dómskerfi fyrir eina tegund lögbrots eins hóps manna.






×