
Innherji

Stærsti hluthafinn segir að leigufélagið Alma verði ekki selt inn í Eik
Langsamlega stærsti fjárfestirinn í Eik, sem er jafnframt eigandi að leigufélaginu Ölmu, segir að engin áform séu uppi um að Alma verði selt inn í hið skráða fasteignafélag. Þá hefur stjórnin ekki tekið neina ákvörðun um hvort Eik muni ráðast í útleigu á íbúðum en á nýlegum aðalfundi var samþykkt að tilgangur félagsins sé meðal annars að standa sjálft að uppbyggingu á slíku húsnæði.
Fréttir í tímaröð

„Brostnar væntingar“ fjárfesta en áhættustig Alvotech samhliða lækkað mikið
Mikið verðfall á hlutabréfum Alvotech eftir uppfærða afkomuspá endurspeglaði brostnar væntingar fjárfesta, sem um leið losaði út talsvert af skuldsettum stöðum, en þrátt fyrir tímabundnar hraðahindranir undirstrika greinendur að félagið sé á allt öðrum stað en áður og efnahagsreikningurinn orðinn mun „heilbrigðari“. Ný og betri upplýsingagjöf er sögð geta leitt til „þroskaðri umræðu og væntinga“ um Alvotech en markaðsviðskipti Íslandsbanka nefna að ef félagið nær um 350 milljóna dala rekstrarhagnaði á næstu tveimur árum, nokkuð undir útgefinni áætlun, ætti það að skila sér í virkilega góðri ávöxtun.

Fer lítið fyrir innviðaverkefnum sem eru í samræmi við skyldur lífeyrissjóða
Þótt oft sé látið að því liggja í stjórnmálaumræðunni að „hinar og þessar“ brýnu innviðafjárfestingar henti lífeyrissjóðum vel þá fer hins vegar lítið fyrir því, að sögn fráfarandi stjórnarformanns Birtu, að um sé að ræða verkefni sem uppfylla skilyrði um nægjanlega arðsemi. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins hefur sjálfur nýlega sagt að stærsta áhættan við mögulegt samstarf opinberra aðila og einkafjárfesta við innviðaverkefni sé hin pólitíska áhætta.

Hagnaður ACRO jókst yfir fimmtíu prósent og nam nærri milljarði króna
Umtalsverður tekjuvöxtur ACRO verðbréfa á liðnu ári skilaði sér í því að hagnaður félagsins tók mikið stökk og nam hátt í einum milljarði króna eftir skatt. Verðbréfafyrirtækið, sem hefur meðal annars haft umsjón með stórum fjármögnunum hér heima fyrir Alvotech síðustu misseri og ár, greiðir meginþorra þess hagnaðar út í arð til eigenda.

Hækkun veiðigjalda rýrir virði skráðra sjávarútvegsfélaga um yfir 50 milljarða
Áform ríkisstjórnarinnar um tvöföldun veiðigjalda mun valda því að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja í Kauphöllinni, sem eru að talsverðum hluta í eigu lífeyrissjóða, rýrna um samtals 53 milljarða, samkvæmt nýrri greiningu, og draga úr hvata til fjárfestingar vegna minni arðsemi. Þá er varað við því að komi jafnframt til ytri áfalla, eins og meðal annars léleg nýliðun loðnustofns og viðskiptastríðs, þá sé hætt við að umsvifin minnki verulega og sjávarútvegur verði „ekki lengur einn af máttarstólpunum í íslensku atvinnulífi.“

Sveinn snýr aftur til starfa hjá Arctica Finance sem greinandi
Sveinn Þórarinsson, sem hefur verið sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu undanfarin ár, er að snúa aftur til Arctica Finance þar sem hann mun taka til starfa sem greinandi fyrir markaðsviðskipti verðbréfafyrirtækisins.

Hagnaður Arctica hækkaði í nærri 400 milljónir eftir kröftugan tekjuvöxt í fyrra
Þóknanatekjur Arctica Finance jukust um nærri fjórðung á liðnu ári, sem einkenndist af sveiflukenndu árferði á verðbréfamörkuðum, og hafa þær aldrei verið meiri. Kröftugur tekjuvöxtur verðbréfafyrirtækisins, sem hefur meðal annars verið ráðgjafi við fjármögnun og skráningu Oculis í Kauphöllina, skilaði sér í tæplega 400 milljóna hagnaði.

Stoðir minnkuðu stöðu sína í Arion og Kviku fyrir meira en þrjá milljarða
Stoðir, langsamlega stærsti einkafjárfestirinn í Arion og Kviku, minnkaði nokkuð eignarhlut sinn í bönkunum undir lok síðasta mánaðar þegar fjárfestingafélagið stóð að sölu á bréfum fyrir yfir þrjá milljarða að markaðsvirði. Félagið er eftir sem áður með rúmlega fimm prósenta eignarhlut í bönkunum, en salan átti sér stað skömmu áður en hlutabréfamarkaðir féllu verulega í verði samtímis því að Bandaríkjaforseti efndi til tollastríðs við flestar þjóðir heimsins.

Góður tími fyrir gjaldeyriskaup bankans og ætti að bæta jafnvægið á markaði
Ákvörðun Seðlabankans að hefja reglukaup kaup á gjaldeyri kemur á góðum tímapunkti, að mati gjaldeyrismiðlara, núna þegar lífeyrissjóðir hafa dregið sig til hlés samtímis talsverðu innflæði á markaðinn sem hefur ýtt undir gengisstyrkingu krónunnar. Áætluð kaup bankans, gerð í því skyni að styrkja gjaldeyrisforðann sem hefur farið lækkandi, ættu ekki að hafa mikil áhrif á gengið en krónan gaf lítillega eftir við opnun markaða í morgun.

Þegar búið að verðleggja inn „ansi mikil“ neikvæð áhrif í núverandi verð félaga
Sé litið til fyrri stórra niðursveiflna á hlutabréfamörkuðum, eins og við upphaf heimsfaraldursins og þegar netbólan sprakk um aldamótin, þá hefur sagan sýnt að kaup í markaði við núverandi aðstæður geta reynst hagfelld til lengri tíma litið, segir framkvæmdastjóri Acro Verðbréfa. Hann telur ljóst að búið sé að verðleggja nú þegar inn „ansi mikil“ neikvæð áhrif í hlutabréfaverð félaga í Kauphöllinni vegna óvissu og umróts á alþjóðamörkuðum og sér þess ekki endilega merki að almenningur sé að losa um stöður umfram stærri fjárfesta.

„Vekur sérstaka athygli“ að opinber útgjöld verði áfram hærri en fyrir faraldur
Fjármálaráð beinir því til stjórnvalda að greina af hverju umfang útgjalda hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu hefur haldist jafn hátt og raun ber vitni eftir heimsfaraldur, þróun sem er á skjön við aðrar þjóðir, og segir jafnframt „óákjósanlegt“ að hið opinbera sé búið að vera leiðandi í launaþróun á vinnumarkaði frá árinu 2020. Þótt ráðið segist fagna því að tekin er upp útgjaldaregla þá þurfi að tryggja að hún verði bæði nægjanlega ströng og bindandi, auk þess sem varast skuli að árlegur tveggja prósenta raunútgjaldavöxtur verði sérstakt markmið – heldur aðeins hámark.

Erlendir fjárfestar ekki selt meira í íslenskum ríkisverðbréfum um árabil
Eftir nokkuð stöðugt innflæði fjármagns í ríkisverðbréf að undanförnu, sem hefur átt sinn þátt í að styrkja gengi krónunnar, þá breyttist það í mars þegar erlendir fjárfestar minnkuðu stöðu sína um meira en fjóra milljarða. Vaxtamunur Íslands við útlönd, bæði til skemmri og lengri tíma, hefur heldur farið minnkandi síðustu mánuði.

Minni efnahagsumsvif vegna tollastríðs gæti opnað á „hraustlega“ vaxtalækkun
Ísland er ekki eyland og vaxandi ótti fjárfesta við samdrátt í heimshagkerfinu, sem birtist meðal annars í mikilli lækkun olíuverðs, mun skila sér í minni efnahagsumsvifum hér á landi og gæti gefið peningastefnunefnd Seðlabankans færi á því að losa talsvert um raunvaxtaaðhaldið, að sögn sérfræðings á skuldabréfamarkaði. Það ætti að kalla um leið á „hraustlega“ vaxtalækkun í næsta mánuði, mögulega um 100 punkta, en verðbólguálag til skamms tíma hefur lækkað skarpt að undanförnu.

Furðar sig á miklum umsvifum hins opinbera á fasteignamarkaði
Þegar litið er til þess að ný ríkisstjórn hefur sett fram afar tímabær sjónarmið um eðlilega hagræðingu í hinu opinbera kerfi þá sé ástæða til að spyrja hvað það er sem kallar á mikil umsvif ríkisins á fasteignamarkaði, að mati stjórnarformanns Kaldalóns, en fasteignasafn þess víðsvegar um landið telur vel yfir fimm hundruð þúsund fermetra. Miðað núverandi hlutdeild Kaldalóns á markaði fyrir útleigu atvinnuhúsnæðis, sem Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint sem fákeppnismarkað, telur hann vera raunhæft markmið að fasteignafélagið geti stækkað á komandi árum.

Kerfi alþjóðaviðskipta í uppnámi og erfitt að verðleggja áhættu til lengri tíma
Ákvörðun Donald Trumps að efna til viðskiptastríðs við helstu viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna með því að setja á sögulega háa innflutningstolla hefur sett fyrirkomulag alþjóðaviðskipta í uppnám, sem ekki sér fyrir endann á, og fjárfestar eiga afar erfitt með að verðleggja áhættu til lengri tíma, að sögn framkvæmdastjóra Visku. Vegna mikillar óvissu í efnahagsumhverfinu sé þetta ekki rétti tíminn til að „spila aggressífan leik“ en hann telur óhjákvæmilegt að Seðlabanki Bandaríkjanna bregðist við hratt versnandi efnahagshorfum með lækkun vaxta ásamt öðrum aðgerðum til að auka seljanleika á markaði og enginn eignaflokkur „hlaupi hraðar“ í þeim aðstæðum en rafmyntir.

Minni fjárfestar flýja óvissu og um 600 milljarða markaðsvirði þurrkast út
Þegar litið er til helstu hlutabréfamarkaða beggja vegna Atlantshafsins þá hefur aðeins Nasdaq-vísitalan í Bandaríkjunum, sem inniheldur stærstu tæknifyrirtækin, lækkað meira í virði fá áramótum en íslenska Úrvalsvísitalan. Markaðir hafa verið í frjálsi falli vegna óvissunnar eftir Trump boðaði umfangsmikla tolla á viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna og á þessu ári hafa liðlega sex hundrað milljarðar af markaðsvirði félaga á Aðallista Kauphallarinnar þurrkast út, en verðlækkun síðustu daga er meðal annars drifin áfram af veðköllum og sölu smærri fjárfesta.

Væri „ekki heppilegt“ að sjá gengi krónunnar styrkjast mikið meira
Það er „óþægilegt“ að sjá utanríkisviðskiptin og krónuna vera að færast í sitthvora áttina, eins og hefur verið reyndin að undanförnu með gengisstyrkingu og auknum viðskiptahalla, að sögn seðlabankastjóra, og undirstrikar að þetta sé ekki þróun sem Seðlabankinn fagnar. Krónan hefur aðeins gefið eftir síðustu daga í kjölfar þess að Seðlabankinn beitti gjaldeyrisinngripum í fyrsta sinn í meira en eitt ár og Ásgeir Jónsson segir að það væri „ekki heppilegt“ að sjá gengið styrkjast mikið meira en orðið hefur.

Boða kaupaukakerfi fyrir starfsmenn Íslandsbanka þegar ríkið hefur selt
Núna þegar útlit er fyrir að eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka minnki verulega í væntanlegu hlutafjárútboði, og fari að sennilega í eða undir um fimmtungshlut, þá hefur stjórnin boðað að hún ætli í kjölfarið að endurvekja kaupaaukakerfi fyrir starfsmenn, rúmlega átta árum eftir að það var lagt niður þegar bankinn komst í eigu ríkisins. Stjórnarformaður Íslandsbanka beinir einnig spjótum sínum að Seðlabankanum og segir mikilvægt að hann skýri nánar þær íþyngjandi kröfur sem eru lagðar á bankakerfið, meðal annars hvort við sem þjóð séum reiðubúin að greiða kostnaðinn sem þeim fylgir.

Skýra þarf betur hvernig tilboðsbók fyrir stærri fjárfesta styður við verðmyndun
Sú ákvörðun um að bæta við sérstakri tilboðsbók C í fyrirhuguðu hlutafjárútboði á eftirstandandi hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, ætluð stórum innlendum og erlendum fagfjárfestum, þarf að skýra betur með tilliti til framkvæmdar og tilgangs, að mati Kauphallarinnar, meðal annars hvernig hún að eigi að hjálpa til við verðmyndun í útboðinu. Stjórnvöld telja að fyrsti mögulegi gluggi til að halda áfram með söluferlið verði fyrri hluta maímánaðar.

Spyrnir gegn styrkingu krónunnar með fyrstu inngripunum í meira en eitt ár
Þrátt fyrir að hafa staðið fyrir talsverðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í nokkur skipti undir lok vikunnar þegar Seðlabankinn keypti gjaldeyri til að stemma stigu við gengishækkun krónunnar þá var ekkert lát á risi hennar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Gjaldeyrisinngripin voru þau fyrstu hjá Seðlabankanum í meira en eitt ár en skörp gengisstyrking krónunnar að undanförnu, meiri en sennilegt er að peningamálayfirvöld álíti æskilegt, er nokkuð á skjön við undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins og spár um viðskiptahalla á komandi árum.

Gott gengi tæknifyrirtækja hefur aukið samþjöppun erlendra eigna lífeyrissjóða
Með auknu vægi bandarískra tæknifyrirtækja í heimsvísitölu hlutabréfa hefur orðið talsverð samþjöppun þegar litið er til erlendra hlutabréfafjárfestinga íslensku lífeyrissjóðanna á síðustu árum, samkvæmt greiningu Seðlabankans, og eignarhlutur tíu stærstu félaganna í eignasöfnum sjóðanna nemur núna samanlagt um tíu prósent af öllum erlendum eignum þeirra. Miklar lækkanir hafa einkennt bandaríska hlutabréfamarkaðinn á undanförnum vikum en fjárfestingarstefnur lífeyrissjóðanna hér á landi fyrir árið 2025 sýna að sjóðirnir ætla sér að fara varlega í að auka vægi sitt frekar í erlendum eignum eins og sakir standa.

„Hverjum manni augljóst“ að umgjörð bankakerfisins skaðar samkeppnishæfni
Það ætti að vera „hverjum manni augljóst“ að umgjörðin um fjármálakerfið, sem felst í sértækum sköttum og gullhúðun regluverks, dregur úr samkeppnishæfni og eykur kostnað alls íslensks atvinnulífs, ekki aðeins fjármálageirans, að sögn stjórnarformanns Kviku sem hvetur stjórnvöld til að ráðast í úrbætur. Hann segir að með fjármununum sem fást við söluna TM, sem var samþykkt að greiða út að stórum hluta í arð til hluthafa á aðalfundi í gær, sé tekið mikilvægt skref til að ná meðal annars markmiðum um að aukar vaxtatekjur bankans.

Framlegð Alvotech aukist hratt samhliða því að tekjurnar fari í um 200 milljarða
Mikill vöxtur í sölutekjum þýddi að heildarvelta Alvotech á síðasta ársfjórðungi 2024 var nokkuð umfram spár greinenda, enda þótt rekstrarafkoman hafi verið lakari, en á sama tíma hefur félagið fært lítillega niður tekjuspá sína fyrir yfirstandandi ár þar sem verðlækkanir á hliðstæðum við Stelara hafa áhrif. Útlit er hins vegar fyrir að EBITDA-framlegðin aukist talsvert og þá hefur Alvotech gefið út nýja afkomuáætlun til meðallangs tíma sem gerir ráð fyrir að tekjurnar liðlega þrefaldist á næstu árum ásamt því rekstrarhagnaðurinn muni nema yfir 600 milljónum dala.

Krónan styrkist hratt eftir að lífeyrissjóðir og spákaupmenn drógu sig í hlé
Ekkert lát er á gengisstyrkingu krónunnar, sem er núna í sínu hæsta gildi gagnvart evrunni frá því um haustið 2023, en sú þróun má einkum rekja til þess að gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafa verið hverfandi frá áramótum og framvirkar stöður með krónunni ekki minni um langt árabil. Mikil hækkun á gengi krónunnar að undanförnu kemur á sama tíma og blikur eru á lofti hjá sumum af helstu útflutningsgreinum landsins og útlit fyrir nokkurn viðskiptahalla á komandi árum.