Innlent

Niðurfelling lána getur numið 15 til 30 milljónum

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.

Samningar um síðasta atriði aðgerða í þágu skuldsettra heimila tókust á laugardag þegar lánveitendur á íbúðamarkaði komu sér saman um verklag við aðlögun fasteignalána að verðmæti fasteignar. Með því eru öll boðuð úrræði til lausnar skuldavanda heimilanna komin upp á borðið og bjóðast skuldurum strax í dag.

Samkvæmt þessu nýjasta samkomulagi býðst eigendum heimila, þar sem áhvílandi veðskuldir eru umfram 110 prósent af verðmæti eignarinnar, að færa skuld sína niður að því marki, að uppfylltum ýmsum skilyrðum.

Niðurfelling lántakenda getur numið allt að 15 milljónum fyrir einstaklinga og 30 milljónum fyrir einstæða foreldra og sambýlisfólk.

Niðurfærsla upp að fjórum milljónum fyrir einstaklinga og sjö milljónum fyrir einstæða foreldra og sambýlisfólk er óháð tekjum, utan þeirra lífeyrissjóðslána sem miða við að greiðslubyrði af umræddum lánum sé ekki lægri en sem svarar 18 prósentum af heildartekjum umsækjenda.

Samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda og lánveitenda frá 3. desember átti þessi valkostur að vera til reiðu þann 15. desember og er því mánuði á eftir áætlun.

„Þetta hefur tekið nokkurn tíma því að menn voru að reyna að útfæra þetta þannig að það nýttist fleirum er ráðgert var í upphafi og það hefur tekist," segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, í samtali við Fréttablaðið.

Árni Páll segir þó ánægjulegt að búið sé að klára úrræðin sem eru í boði.

„Nú er um að gera fyrir skuldara að snúa sér beint til þeirra sem eru aftast í veðröðinni, en þeir eiga að halda utan um málin gagnvart öðrum lánveitendum."

Aðspurður segir Árni að ekki verði boðið upp á fleiri úrræði að svo stöddu.

„Við höfum verið að ganga að stjórnarskrárvörðum eignarrétti banka og lífeyrissjóða og það er ekkert frekara svigrúm. Við höfum kallað eftir því að menn núvirði kröfur og horfist í augu við það sem er glatað í þeim og það er gert með þessum úrræðum. Við höfum viljað að svigrúm fjármálastofnana sé nýtt til fulls og teljum að það sé gert með þessu. Nú skiptir hins vegar mestu máli að ganga eftir því að málin gangi hratt og örugglega svo að þessar aðgerðir skili sér í raun en ekki bara á pappírnum." thorgils@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×