Innlent

Kanna hvort lögregla vissi um flugumann

Mark Kennedy tók þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri Alcoa sumarið 2005. Hér beita meðlimir í Saving Iceland hliðstæðum aðferðum við álver Norðuráls á Grundartanga árið 2007 og var beitt á Kárahnjúkum.Mynd/Magnús Magnússon
Mark Kennedy tók þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri Alcoa sumarið 2005. Hér beita meðlimir í Saving Iceland hliðstæðum aðferðum við álver Norðuráls á Grundartanga árið 2007 og var beitt á Kárahnjúkum.Mynd/Magnús Magnússon
Innanríkisráðuneytið mun kanna hvort íslensk löggæsluyfirvöld hafi vitað að flugumaður breskra löggæsluyfirvalda hafi komið hingað til lands á fölskum forsendum árið 2005.

Lögreglumaðurinn, Mark Kennedy, gekk undir nafninu Mark Stone á árunum 2003 til 2009. Þá var hann gerður út af breskum lögregluyfirvöldum til að blanda sér í ýmsa hópa aðgerðasinna í Bretlandi og víðar á fölskum forsendum. Hlutverk hans var að afla upplýsinga um aðgerðasinnana með leynd, að því er fram kemur í breska dagblaðinu Guardian.

Kennedy kom til Íslands árið 2005 og tók þátt í mótmælum Saving Iceland við álver Alcoa og Kárahnjúkavirkjun. Ekki hefur verið upplýst hvort íslensk stjórnvöld hafi vitað að Kennedy hafi í raun starfað fyrir bresku lögregluna á þeim tíma.

Guardian greindi frá því fyrir helgi að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hygðist láta rannsaka málið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það orðum aukið að málið verði rannsakað formlega. Til stendur að kanna innan ráðuneytisins og stofnana þess hvort íslensk stjórnvöld eða lögregla hafi vitað að Kennedy hafi í raun verið breskur lögreglumaður.

Fréttablaðið sendi ríkislögreglustjóra fyrirspurn um mál Marks Kennedy fyrir helgi. Í svari frá ríkislögreglustjóra segir aðeins að embættið hafi ekkert um þetta mál að segja.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vöruðu bresk löggæsluyfirvöld ríkislögreglustjóra við því að í hópi erlendra mótmælenda sem kom hingað til lands árið 2005 væru nokkrir afar harðskeyttir aðgerðasinnar, en ekki kom fram hvernig breska lögreglan aflaði þeirra upplýsinga.

Össur Skarphéðinsson utanríkisríkisráðherra svaraði spurningum um mál Kennedys í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudag. Þar sagði Össur ekki tilefni til viðbragða af sinni hálfu vegna málsins fyrr en niðurstaða væri fengin í innanríkisráðuneytinu.

„Hins vegar get ég lýst því sem skoðun minni að þetta sé mjög umdeilanleg aðferð sem þarna er beitt,“ sagði Össur. „Eins og ég skil þetta er um að ræða forvirkar rannsóknir sem íslensk lögregla hefur ekki heimild til að stunda.“

Í forvirkum rannsóknaraðgerðum felst að einstaklingar eða hópar eru rannsakaðir án þess að rökstuddur grunur sé um að ákveðinn glæpur hafi verið framinn eða til standi að fremja tiltekinn glæp. brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×