Innlent

Áhugaverð umfjöllun um heilsu kvenna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á næstunni stendur Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss, fyrir röð hádegisfyrirlestra i Háskólanum í Reykjavík, um málefni tengd heilsu kvenna. Fyrsti fundurinn verður í hádeginu í dag klukkan tólf. Fyrirlestrarnir eru liður í undirbúningi fyrir fjársöfnun Lífs fyrir kvennadeildina, sem haldin verður á landsvísu - og lýkur með glæsilegum söfnunarþætti á Stöð 2 í byrjun mars. Fundirnir eru opnir öllum almenningi sem er hvattur til að mæta og hlýða á áhugaverð erindi um heilsufar kvenna.

Fyrsti fundur Lífs fjallar um fyrirhugaða bólusetningu gegn HPV eða vörtuveiru, sem er algengasta orsök leghálskrabbameins og veldur einnig vörtum á kynfærum. Alþingi samþykkti á síðasta ári þingsályktunartillögu um að undirbúa og hefja bólusetningu og fjárlaganefnd Alþingis veitti 50 milljónum til verkefnisins. Næstu skref eru í höndum heilbrigðisyfirvalda landsins, að innleiða bólusetningu inn í hefðbundnar forvarnir við heilsugæslu barna.

Í fréttatilkynningu frá Líf kemur fram að árlega greinast 10-20 konur með leghálskrabbamein á Íslandi og tvær til þrjár deyja árlega af völdum sjúkdómsins. Til eru meira en 100 tegundir af HPV og valda sumar krabbameinum en aðrar vörtum. Um 75-80% karla og kvenna sýkjast af HPV einhvern tíma á ævinni en flestir eru einkennalausir og losna við veiruna af sjálfu sér. Fram kemur í tilkynningunni frá Líf að allir sem lifa kynlífi geta fengið HPV en samfarir eru ekki nauðsynlegar til að smitast. Smokkar eru léleg vörn gegn HPV smiti þar sem þeir verja aðeins það svæði sem þeir hylja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×