Innlent

Frumvarp um ný kvótalög kemur fram í febrúar

Heimir Már Pétursson skrifar

Sjávarútvegsráðherra segir að frumvarp um stjórnun fiskveiða muni að öllum líkindum líta dagsins ljós í næsta mánuði. Máli gegn honum vegna ákvörðun um að gefa úthafsrækjuveiðar frjálsar var vísað frá Héraðsdómi í dag og verður því áfrýjað til Hæstaréttar.

Sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar á yfirstandandi fiskveiðiári sem hófst í september. Þetta gerði hann á þeim forsendum að veiðiheimildirnar hefðu ekki verið nýttar undanfarin ár, nema þá sem skiptimynt til kaupa á veiðiheimildum í öðrum tegundum.

Útvegsmenn sættu sig illa við þetta og fór Rammi á Siglufirði í mál við ráðherrnn á þeim forsendum að hann gæti ekki gefið veiðar á kvótabundnum tegundum frjálsar. Þá hefði fyrirtækið fjárfest fyrir milljarða í rækjuheimildum, veiðum og vinnslu. Héraðsdómur vísaði málinu frá í morgun.

„Ég hef aldrei verið í neinum vafa um það að þessi aðgerð að taka rækjuna út úr kvóta eins og gert var væri fullkomlega lögleg og smræmdist þeim hagsmunum sem mér sem ráðherra ber að standa vörð um," segir Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Lögmaður Ramma segir að niðurstöðu héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar. En svo geti farið að reynsla þurfi að koma á fyrirkomulag ráðherrans áður en mál verði höfðað og þá verði það gert næsta haust, ef Hæstiréttur staðfesti niðurstöður héraðsdóms.

En útgerðarmenn bíða líka niðurstöðu ráðherra varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið í heild. Þar skilaði nefnd af sér í haust og lagði til að svo kölluð samningaleið yrði farin við úthlutun fiskveiðiheimilda, en innan stjórnarflokkanna hafa menn viljað innkalla veiðiheimildir og útdeila þeim aftur. Ráðherra segir að verið sé að útfæra blandaða leið.

„Og ég á von á því að frumvarp komi fram þegar líður á febrúar," segir sjávarútvegsráðherra. Þetta mál sé ríkisstjórninni ekki erfitt og hann hafi ekki orðið var við neinn ágreining um það innan ríkisstjórnarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×