Innlent

Hafna að setja kirkju að veði fyrir gjöldum


Á Bræðraborgarstíg 2 á að rísa kirkja og á Bakkastíg 8 safnaðarheimili og íbúð prests rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar,
Fréttablaðið/Vilhelm
Á Bræðraborgarstíg 2 á að rísa kirkja og á Bakkastíg 8 safnaðarheimili og íbúð prests rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Fréttablaðið/Vilhelm

Andrey Tsyganov, sendiherra Rússlands á Íslandi, gekk á fund Jóns Gnarr borgarstjóra í desember og sýndi honum uppdrætti að kirkjubyggingu og safnaðarheimili sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hyggst reisa á Bræðraborgarstíg og Bakkastíg.

Stefnt er að því að undirrita samningana um kirkjulóðina upp úr miðjum febrúar á hátíðisdegi innan rússneska safnaðarins. Af því tilefni er væntanlegur háttsettur fulltrúi rússnesku kirkjunnar í Moskvu, að því er sendiherra Rússlands hefur tilkynnt borgaryfirvöldum.

Í vegi fyrir því að lóðamálið sé leitt til lykta stendur þó meðal annars að Rússar hafa enn ekki sent inn teikningar að kirkjunni.

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, sat áðurnefndan fund sem borgarstjóri átti með Tsyganov sendiherra og fylgdarliði 16. desember síðastliðinn. Á fundinum voru Rússarnir með möppu með uppdráttum af kirkjunni fyrirhuguðu og sýndu fulltrúum borgarinnar. Þeir vildu ekki skilja möppuna eftir en boðuðu að þeir myndu senda teikningar á tölvutæku formi síðar. Eftir því sem næst verður komist hafa teikningarnar þó enn ekki skilað sér.

„Við fyrstu sýn sýndist mér að þetta væri alveg á þeim forsendum sem voru gefnar fyrir þessari lóð. Eigi að síður þurfum við fyrr eða síðar að fá teikningar af þessu húsi og fara yfir þær,“ segir Páll við Fréttablaðið. Hann kveðst eiga von á að uppdrættirnir skili sér í tæka tíð svo hægt verði að ganga frá lóðamálinu í febrúar.

En skortur á teikningum er ekki það eina sem tefur málið. Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur, segir að ekki sé komið endanlegt form á lóðasamninginn.

„Í venjulegum hefðbundnum lóðaleigusamningum segir að byggingar á lóðum séu að veði fyrir fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum. En söfnuður Moskvu-patríarkans er með reglur þar sem segir að bannað sé að veðsetja kirkjulegar eignir,“ nefnir Ágúst sem dæmi um mál sem strandað hafi aðeins á og þurfi að leysa. Þá sé til skoðunar að láta lítinn skika úr borgarlandinu, sem ekki tilheyri lóðunum tveimur, verða hluta kirkjulóðarinnar. „Við vinnum bara að þessu í kristilegum kærleika.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×