Innlent

Neyðarkall til ríkisstjórnarinnar

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Þriðjungur vinnufærra manna á Flateyri er nú án atvinnu. Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi var lýst gjaldþrota í gær en þá töpuðust fjörtíu og tvör störf. Þá missa sjö til viðbótar atvinnu þegar öldrunarheimilinu Sólborg verður lokað í apríl.

Íbúar Flateyrar komu saman á hafnarbakkanum og tendruðu blys. Blys sem tákna áttu neyðarkall til ríkisstjórnarinnar. Ekki bara frá Flateyri heldur landsbyggðinni allri sem standi frammi fyrir atvinnuleysi og fólksflótta.

Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi var lýst gjaldþrota í gær. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun í maí en neyddist svo til að segja upp öllu starfsfólki sínu í október.

Stjórnarformaður Eyrarodda, segist hafa vonast til að tryggja rekstrargrundvöll félagsins þegar ljóst var að byggðakvóti Flateyrar yrði aukinn um þrjú hundruð tonn. Í framhaldinu var því óskað eftir nauðasamningsumleitunum við kröfuhafa félagsins.

„Á endanum var það svo að við höfðum ekki nægilegt fjármagn til að ná þeirri niðurstöðu fram og því þurftum við að óska eftir greiðslustöðvun," segir Teitur Björn Einarsson, stjórnarformaður Eyrarodda.

Teitur Björn segir tilgang félagsins hafa verið að viðhalda atvinnustarfsemi á Flateyri. Gjaldþrot Eyrarodda sé þó ekki náðarhögg fyrir byggð í Önundarfirði.

„Það er ótrúleg seigla í fólki fyrir vestan, eins og landsmenn þekkja. Þetta er vissulega þungt högg og erfitt og hefur átt sér ákveðinn aðdraganda svo menn hafa verið við þessu búnir. Það eru alltaf einhver tækifæri sem skapast," segir Teitur Björn.

Teitur Björn segir þó enn vera forsendur fyrir áframhaldandi fiskvinnslurekstri á Flateyri að vissum skilyrðum uppfylltum en hann og aðrir forsvarsmenn Eyrarodda munu kanna þann möguleika á næstunni.

„Ef við getum komið að því máli munum við gera það, en það er erfitt að segja eitthvað til um það á þessari stundu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×