Innlent

Áskilja sér rétt til að verja eigur sínar ytra

Jón Ásgeir jóhannesson
Jón Ásgeir jóhannesson
Slitastjórn Glitnis er aftur komin í hart við svokallaða sjömenningaklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í New York, þrátt fyrir að dómari hafi vísað málinu frá að uppfylltum skilyrðum. Það eru einmitt þau skilyrði sem nú er tekist á um fyrir dómnum.

Þegar dómarinn Charles E. Ramos vísaði málinu frá dómi um miðjan desember, með þeim orðum að málið ætti heima fyrir íslenskum dómstólum, setti hann tvö skilyrði fyrir frávísuninni:

Annars vegar að stefndu gæfu skriflega yfirlýsingu þess efnis að þeir myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla yfir sér og mættu sjálfviljugir fyrir dóminn, og hins vegar að þeir myndu ekki grípa til neinna varna ytra ef til þess kæmi að gera ætti eigur þeirra í New York upptækar að gengnum dómi í málinu. Stefndu kváðust fyrir dómi fallast á þessi skilyrði.

Undanfarnar vikur hafa lögmenn stefndu og slitastjórnarinnar reynt að koma sér saman um nákvæma, skriflega útfærslu þessara skilyrða. Á miðvikudaginn í síðustu viku varð ljóst að samkomulag um útfærsluna myndi ekki nást. Í yfirlýsingu sem slitastjórnin hefur sent til dómstólsins segir að viðræðurnar hafi strandað á því að lögmenn slitastjórnarinnar hafi viljað mun vægari skilyrði en slitastjórnin telur rétt með hliðsjón af orðum dómarans.

Vegna þessa var ákveðið að koma á símafundi með dómaranum á föstudaginn var til að reyna að leiða deiluna til lykta. Áður en af fundinum varð sendu sjömenningarnir hins vegar sína eigin útfærslu af skilyrðunum inn til dómsins - útfærslu sem slitastjórnin hafði alls ekki getað fellt sig við.

Í þeirri útfærslu sverja sjömenningarnir að ef sótt verður að eignum þeirra í New York muni þeir ekki nota þrjár tilteknar málsástæður til að verjast aðför; að réttarhöldin á Íslandi hafi verið hlutdræg, að dómstólarnir hafi ekki haft lögsögu yfir þeim eða að Ísland hafi verið rangur vettvangur fyrir réttarhöldin. Slitastjórnin mótmælir þessu harðlega í bréfi sínu til dómsins og telur að með þessu opni sjömenningarnir á þann möguleika að grípa til varna á öllum öðrum forsendum en þessum þremur. Það sé á skjön við það sem fram kom í máli dómarans við frávísunina í desember.

Líklegt er að það verði dómarans að taka endanlega ákvörðun um útfærslu skilyrðanna.

stigur@frettabladid.is

lárus welding
Hannes Smárason


Pálmi Haraldsson
ingibjörg Pálmadóttir
Jón Sigurðsson,
Þorsteinn Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×