Innlent

Frávísun í rækjumáli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Útgerðarfélagið stefndi íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Jóns Bjarnasonar.
Útgerðarfélagið stefndi íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Jóns Bjarnasonar.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli útgerðarfélagsins Ramma gegn íslenska ríkinu. Útgerðarfélagið krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að Jóni Bjarnasyni, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi verið óheimilt að gefa veiðar á úthafsrækja frjálsar á fiskveiðitímabilinu 2010/1011.

Rammi byggði mál sitt meðal annars á því að hann hafi fjárfest í aflahlutdeild fyrir um 3.3 milljarða króna frá árinu 1988. Auk þess hafi fyrirtækið fjárfest í skipum og tækjum vegna veiðanna. Með ákvörðun sinni hafi aflahlutdeild stefnanda verið gerð verðlaus á yfirstandandi fiskveiðiári og verðgildi hennar rýrnað til frambúðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að krafa útgerðarfélagsins í dómsmálinu fjallaði ekki um rétt stefnanda í ákveðnu tilviki. Krafan fæli í sér að almennt verði viðurkennt að ráðherranum hafi verið óheimilt að ákveða ekki með reglugerð heildarafla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu. Eins og krafan sé byggð upp hafi útgerðarfélaginu Ramma ekki tekist að sýna fram á að fyrirtækið hafi haft lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu dómsins. Því bæri að vísa málinu frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×