Innlent

Fréttaskýring: Auðlindir verði að hámarki leigðar út til 25 eða 30 ára

Meta á svokallaðan umhverfiskostnað af virkjunarframkvæmdum og rukka þá sem virkja um þann kostnað, að mati höfunda draga að nýrri orkustefnu.Fréttablaðið/GVA
Meta á svokallaðan umhverfiskostnað af virkjunarframkvæmdum og rukka þá sem virkja um þann kostnað, að mati höfunda draga að nýrri orkustefnu.Fréttablaðið/GVA

Hvaða áherslur endurspeglast í drögum að nýrri orkustefnu sem gerð hafa verið opinber?

Lagt er til að vatns- og jarðvarmaauðlindir landsins verði ekki leigðar út til lengri tíma en 25 til 30 ára í drögum að nýrri orkustefnu sem nú hefur verið gerð opinber.

Þetta er mun styttri tími en talað hefur verið um hingað til, til dæmis fékk HS Orka nýtingarrétt á jarðvarmaauðlindum á Suðurnesjum til 65 ára, með möguleika á framlengingu til 65 ára til viðbótar.

Í drögum að orkustefnu, sem unnin voru að frumkvæði iðnaðarráðherra, segir að með tilkomu samkeppni og aðkomu einkafyrirtækja að orkuvinnslu sé enn mikilvægara en áður að setja skýrar reglur um leigu á vatns- og jarðhitaréttindum.

Í drögunum eru útlistuð ýmis markmið í þeim efnum, og er þar efst á blaði það markmið að orkuauðlindir á svæðum í eigu ríkis- og sveitarfélaga verði áfram í opinberri eigu. Þjóðin, eða ríkissjóður í hennar umboði, eigi að hafa sanngjarnan arð af auðlindunum.

Enn fremur eigi að gera eignarhaldið skýrt og einfalt, til dæmis með því að koma orkuauðlindum, sem beint eða óbeint eru á forræði ríkisins, í sérstakan auðlindasjóð eða auðlindastofnun. Sjóðurinn eða stofnunin hafi svo það verkefni að leigja út orkuauðlindirnar með samræmdum hætti.

Lagt er til í drögum að orkustefnu að virkjanakostum verði forgangsraðað. Þá er lagt til að virkjanakostir í nýtingarflokki verði rannsakaðir á kostnað ríkisins, ekki þeirra sem vilji leigja auðlindina. Sá kostnaður verði síðan endurgreiddur af þeim sem á endanum virkjar á svæðinu.

Þá er lagt til að skýrar kröfur verði gerðar um umgengni um auðlindirnar, náttúru og umhverfi.

Vinnsla jarðvarma verður að haldast í hendur við varma- og vökvastreymi hvers svæðis svo svæðið haldist í jafnstöðu til lengri tíma, að mati þeirra sem vinna nú að nýrri orkustefnu. Nýta verði jarðvarmann með lágmarks áhrifum á náttúru og umhverfi svo vinnslugeta sé tryggð til fyrirsjáanlegrar framtíðar.

Lágmarka áhættu á áföllum

Í drögum að orkustefnu er lagt til að sett verði skýr markmið um að vinnslufyrirtæki í eigu opinberra aðila ráðist aðeins í virkjanaframkvæmdir sem séu hagkvæmar. Virkjanirnar verði að skila samfélagslegum ábata og eðlilegum arði til almennings. Lágmarka verði áhættuna af því að áföll í verkefnum fyrir stórnotendur komi niður á orkuverði og orkuöryggi almennra notenda.

Í drögunum er lagt til að gert verði skylt að leggja mat á umhverfiskostnað þegar mat á umhverfisáhrifum er unnið. Þannig verði skoðað hvert verðmæti þeirra náttúruverðmæta verði sem þurfi að fórna vegna framkvæmda. Ef til útboðs á virkjanakostum kemur ætti umhverfiskostnaðurinn að vera hluti af auðlindagjaldinu.brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×