Innlent

Formaður félags kráareigenda: Ólöglegar aðgerðir lögreglu

Lögreglan lokaði nokkrum skemmtistöðum í miðborg Reykjavíkur um helgina. Formaður félags kráareigenda kallar eftir frekara samstarfi og sendir lögreglunni tóninn.

Aðfaranótt laugardags lokaði lögreglan að minnsta kosti tveimru skemmtistöðum í miðborginni og vildi meina að of margir gestir hefðu verið þar inni. Ófeigur Friðriksson formaður félags kráareigenda segir þetta ekkert nýtt. Lögregla hafi meira að segja farið inn á staði undanfarið og heimtað að starfsfólk blási í áfengismæla.

„Í rúm þrjú ár höfum við verið að leita eftir betra samstarfi. Það er svolítið sérstakt að á sama tíma og lögreglan er að vaða inn á skemmtistaðina og gera það sem hún hefur verið að gera, og í sumum tilfellum ekki löglega, er hún með allt niður um sig þegar kemur að löggæslu í miðborginni á nóttunni og um helgar," segir Ófeigur.

Hann segist ekki geta tjáð sig um málin um helgina, en þau verði skoðuð í vikunni. Félagið sé meðal annars komið með lögfræðistofu í málið sem sé að skoða þessi mál.

„Við munum skoða hvert mál fyrir sig. Það gengur ekki að láta lögregluna vaða yfir sig. Okkar vilji er að hafa miðborgina örugga og skemmtilega og það er enginn hagur fyrir okkur að miðborgin sé í tómu tjóni eins og hefur verið undanfarið."

Og hún er það? „Hún er það einfaldlega vegna þess að það eru örfáir lögreglumenn á vakt og með þessari hækkun á áfengisgjöldum sem hefur verið undanfarið þá er fólk að koma ölvaðra í bæinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×