Innlent

Mótmælendum fjölgaði þegar líða tók á daginn

Frá Austurvelli á sjötta tímanum í dag.
Frá Austurvelli á sjötta tímanum í dag.
Fátt fólk kom saman á Austurvelli og barði í tunnur þegar þingið kom saman í dag. Mótmælin reyndust þó ekki jafn fjölmenn og í október á síðasta ári þó mótmælendum hafi fjölgað þegar líða tók á daginn.

Um 30 manns börðu í tunnur fyrir utan Alþingi þegar þingið kom saman að nýju eftir jólahlé klukkan þrjú í dag. Það er ekki jafn margt fólk og tók þátt í mótmælunum í október en þá komu átta þúsund manns saman á Austurvelli þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína.

Ásta Hafberg, einn skipuleggjenda mótmælana, segir helstu kröfu mótmælenda vera að stjórnvöld reyni að finna lausn á skuldavanda heimilanna. Hún býst þó ekki við því að Alþingi verði við kröfum mótmælenda.

„Hingað til hefur þetta Alþingi náttúrulega ekki heyrt nokkurn skapaðan hlut. Þannig að við erum náttúrlega ekkert vongóð um nokkurn skapaðan hlut heldur í dag, en við getum heldur ekki gefist upp," segir Ásta.

Mótmælendum fjölgaði þó þegar líða tók á daginn en um 300-400 manns stóðu fyrir utan Alþingi um á sjötta tímanum. Lögreglan girti af þinghúsið til að tryggja vinnufrið lögreglumanna en mótmælin fóru að mestu leiti friðsamlega fram. Lögreglan þurfti að fjarlægja einn góðkunningja sinn af vettvangi en hann mótmælti mótmælunum og taldi Alþingi þurfa frið til að ræða málin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×