Innlent

Biskupamyndin valin fréttaljósmynd ársins

Mynd Gunnars V. Andréssonar, ljósmyndara Fréttablaðsins og Vísis, af Karli Sigurbjörnssyni og Geir Waage var valin fréttaljósmynd ársins á sýningunni Myndir ársins, sem opnaði í Gerðarsafni í dag.

Þá hlaut Baldur Hrafnkell Jónsson, kvikmyndatökumaður Stöðvar 2, verðlaun fyrir fréttamyndskeið ársins en sjá má það hér fyrir ofan.

Brynjar Gauti Sveinsson hlaut verðlaun fyrir mynd ársins en hún var tekin á Núpi undir Eyjafjöllum þar sem bændur smala kálfum og koma þeim í hús vegna öskufoks. Eins og venjan er þá prýðir mynd ársins kápuna á bókinni Myndir ársins 2010 sem er gefin út með öllum myndunum sem er að finna á sýningunni í Gerðarsafni.

Aðrir sem hlutu verðlaun á sýningunni voru þau Kristinn Ingvarsson, Óskar Páll Elfarsson, Rakel Ósk Sigurðardóttir og Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, fyrir Umhverfismynd ársins, sem sjá má hér fyrir neðan.

Dómnefnd ljósmynda valdi úr um 1300 innsendum ljósmyndum frá 34 ljósmyndurum. Dómnefndina skipuðu þau Thomas Borberg myndritstjóri Politiken, Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari, Soffía Rut Hallgrímsdóttir ljósmyndari, Þorkell Þorkelsson ljósmyndari og Anna María Sigurjónsdóttir ljósmyndari.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir landslagsmyndskeið og þau hlaut Guðmundur Bergkvist, kvikmyndatökumaður á RÚV. Ingi R. Ingason, framleiðandi og kvikmyndatökumaður, Sólveig Kr. Bergmann fréttakona á Stöð 2 og Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlungur dæmdu myndskeiðin.

Hægt er að kynna sér verðlaunin betur á vef Blaðaljósmyndarafélags Íslands, pressphoto.is.

Umhverfismynd ársins eftir Vilhelm Gunnarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×