Innlent

Sýknudómur yfir Hauki Haraldssyni ógiltur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haukur var framkvæmdastjóri hjá Landsbanka Íslands.
Haukur var framkvæmdastjóri hjá Landsbanka Íslands.
Hæstiréttur ógilti í dag sýknudóm yfir Hauki Haraldssyni, fyrrverandi starfsmanni Landsbankans, sem ákærður var fyrir að hafa dregið sér 118 milljónir í starfi sínu sem framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum.

Haukur hafði verið sakaður um að hafa fært 118 milljónir yfir á eigin reikning daginn sem skilanefnd tók Landsbankann yfir. Þann 21. apríl í fyrra sýknaði Héraðsdómur Reykjavikur Hauk af ákæru um fjárdrátt. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Hæstaréttur komst svo að þeirri niðurstöðu í dag að héraðsdómur hefði ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu.

Fyrir rétti bar Haukur meðal annars að hann hefði millifært féð til að tryggja að það glataðist ekki eftir að ljóst varð að Landsbankinn stefndi í gjaldþrot. Hann hafi ekki reynt að gera það með leynd. Hæstiréttur segir að héraðsdómur hafi ekki getað dregið einhlítar ályktanir um sakleysi Hauks af þeirri staðreynd að hann hefði ekki reynt að millifæra féð með leynd, enda hefði verið óhjákvæmilegt fyrir hann að fá atbeina annars innan Landsbankans til að millifæra féð. Þá telur Hæstiréttur að óþarfi hafi verið að millifæra féð til að bjarga því eftir að neyðarlögin voru sett 6. október síðastliðinn.

Hæstirettur ómerkti því dóminn og vísaði málinu til meðferðar í héraðsdómi á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×