Innlent

Vonast til að skýrist með stjórnlagaþingið í dag

Vonast er til að þingmannanefnd um stjórnlagaþing skili niðurstöðu í dag. Ekki er komin sátt um málið í nefndinni en samkvæmt heimildum fréttastofu er þrýstingur frá ríkisstjórninni að niðurstaða fáist í dag. Nú í hádeginu munu þingflokkar allra flokka funda og í framhaldi af því mun þingmannanefndin um stjórnlagaþing setjast að fundi og vonast er til að niðurstaða fáist í það hver framtíð stjórnalagaþings mun vera fyrir lok dags í dag. Eftir um tveggja tíma fund nefndarinnar í gærkvöldi var engin niðurstaða komin í málið.

Fyrir síðustu helgi voru flestir fulltrúar nefndarinnar sammála um að fela Alþingi að skipa þá 25 fulltrúa sem kosnir voru í nóvember sem fulltrúa stjórnlagaþings. Sú niðurstaða væri mun ódýrari en að efna til nýrra kosninga. Þessi afstaða breyttist hins vegar eftir ákvörðun Forseta Íslands að vísa Icesave frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu síðastliðinn sunnudag og hefur lítil samstaða verið um málið síðan þá. Þingmannanefndin er undir talsverðum þrýstingi frá ríkisstjórninni að komast að niðurstöðu í dag þar sem gefið hefur verið út að dagsetning þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave verði tilkynnt á morgun og getur niðurstaða nefndarinnar haft áhrif á þá ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×