Innlent

Dæmdur fyrir að taka í lurginn á unglingi

Egilsstaðir. Mynd úr safni.
Egilsstaðir. Mynd úr safni.
Karlmaður á fertugsaldri var dæmdur fyrir að sparka í unglingspilt og hóta honum með hafnaboltakylfu á Egilsstöðum í maí á síðasta ári. Drengurinn, sem er fjórtán ára gamall, var ásamt vini sínum á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum þegar atvikið átti sér stað.

Forsaga málsins er sú að unglingarnir rifu fótbolta af syni hins dæmda, sem var níu ára gamall, og neituðu að skila honum. Samkvæmt dómsorði spörkuðu unglingarnir í drenginn sem varð til þess að hann hringdi í föður sinn. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði tekið með sér hafnaboltakylfuna vegna þess að hann vissi ekki út í hvað hann væri að fara. Dómurinn skilur þá afstöðu.

Hann kom svo á vettvang og sveiflaði kylfunni en notaði hana aldrei. Aftur á móti sparkaði hann í piltinn þannig hann fékk lófastórt mar á fótlegginn. Eftir heldur ógnandi hegðun föðurins flýðu piltarnir.

Dómara þótti árásin ofsafengin og að faðirinn ætti sér engar málsbætur. Var hann því dæmdur fyrir árásina og hótanir að auki. Dómur föðurins er þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Þá er honum einnig gert að greiða piltinum 400 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×