Innlent

Segir ríkisstjórnina hugleiða að beita 11. greininni

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, bendir á að Alþingi geti beitt 11. grein stjórnarskrárinnar til að leysa forseta Íslands frá embætti áður en kjörtíma hans er lokið.

Eiríkur ritaði grein í DV í vikunni. Þar bendir hann á að lagaprófessorarnir Ólafur Jóhannesson og Þór Vilhjálmsson hafi talið að beitti forseti Íslands málsskotsrétti sínum kæmi í raun til uppgjörs á milli forsetans annars vegar og þings og ríkisstjórnar hins vegar.

Því myndi þingið hugleiða að beita 11. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um að hægt sé að leysa forseta frá embætti áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu sem til er stofnað að kröfu Alþingis, en á þingi þarf sú krafa að hafa hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna.

Í grein sinni segir Eiríkur heimildir herma að ríkisstjórnin sé svo að niðurlotum komin í málinu að leiðtogar hennar hugleiði það í fúlustu alvöru að láta sverfa til stáls.

Þá segir Eiríkur að með því að synja lögum Alþingis í þrígang hafi Ólafur Ragnar gjörbreytt embætti forsetans - allavega frá því sem það var í tíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×