Innlent

Ekkert heyrst frá Íslendingum í Christchurch - hópur á leið í brúðkaup

Fjöldi húsa hrundi eftir jarðskjálftann í Christchurch
Fjöldi húsa hrundi eftir jarðskjálftann í Christchurch MYND/AP
Utanríkisráðuneytið hefur enn ekki náð í neina Íslendinga í Christchurch á Nýja Sjálandi eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir borgina. Jarðskjálftinn var um hádegisbil að staðartíma en um miðnætti að íslenskum tíma.

Vitað er að hópur Íslendinga var á leið til borgarinnar til að vera viðstaddur brúðkaup. Auk þess er talsverður fjöldi Íslendinga þar búsettur. Ekki fást þó nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra frá ráðuneytinu.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að mjög erfitt sé að ná sambandi út, og hefur ekki heldur tekist að tala við ræðismann Íslands á svæðinu.

Að minnsta kosti 65 fórust í borginni og er reiknað með að tala látinna hækki þegar líður á daginn.

Skjálftinn mældist 6,3 stig á Richter og upptök hans voru í um 10 km fjarlægð frá borginni. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi á svæðinu en þúsundir manna leita nú í rústunum að ættingjum og vinum.

Fjöldi húsa er hruninn og meðal annars fórst fjöldi fólks þegar hús hrundi á tvo strætisvagna. Þá hrundi dómskirkja borgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×