Innlent

Tillitsleysi í umferðinni pirrar flesta

Tæplega þrír af hverjum fjórum ökumönnum hafa verið undir álagi í umferðinni undanfarið samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Umferðarstofu í nóvember síðastliðnum. Tæpur þriðjungur segist oft eða stundum vera undir álagi.

Álagið virðist fara vaxandi. Nú segjast ríflega 72 prósent vera einhvern tímann undir álagi, en síðla árs 2007 voru tæplega 53 prósent í þeirri stöðu. Þeim fækkar hins vegar sem segjast oft vera undir álagi við akstur. Um tólf prósent sögðust vera í þeirri stöðu síðla árs 2007, en nú aðeins um sex prósent. Þegar þeir sem sögðust vera undir álagi voru spurðir hvað hafi valdið því voru þrjú atriði nefnd af meirihluta þátttakenda.

Flestir, um 72 prósent, nefndu tillitsleysi annarra ökumanna sem ástæðu fyrir álagi þeirra við akstur. Um 67 prósent nefndu skort á notkun stefnuljósa, og um 65 prósent of hægan akstur annarra ökumanna. Rúmur þriðjungur nefndi svo eitt eða fleiri af eftirtöldu: farsímanotkun ökumanna, akstur á vinstri akrein og of hraðan akstur.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×