Innlent

Sakamálarannsókn fari fram á sölunni á HS Orku

Forsvarsmenn áskorunar til stjórnvalda um að tryggja eignarhald á HS Orku sjá fyrir sér að salan verði lögð fyrir dómstóla eða að sakamálarannsókn fari fram um málið.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í vikunni að ríkið þyrfti að greiða Magma Energy rúma 30 milljarði króna ef eignarnámi yrði beitt til að tryggja eignarhald sitt á HS Orku en stjórnarskráin kveður á um að fullt verð eigi að koma fyrir eignarnám. Magma Energy keypti hlut sinn í HS Orku af ýmsum aðilum en heildarfjárfesting Magma í félaginu nemur 31 milljarði króna.

Jón Þórisson, einn forsprakka undirskriftalistans, telur þó að ríkið þyrfti ekki að greiða fullt uppgefið kaupverð fyrir HS Orku, ef eignarnámi yrði beitt.

„Stærsti hluti kaupverðsins er fjármagnaður innanlands með lánum á afar hagstæðum kjörum. Þetta eru kúlulán á 1,52% vöxtum sem er óheyrt nú til dags. Raunverulegir peningar sem hafa skipt um hendur í þessum kaupum eru sennilega á bilinu 6 til 10 milljarðar," segir Jón.

Þá kveðst Jón ekki sannfærður um að eignarnám sé besta leiðin til að tryggja ríkinu eignarhald á HS Orku.

„Niðurstaða Magma skýrslunnar er að þeir telji sig ekki geta svarað spurningunni um hvort að þessi gjörningur sé löglegur eða ekki og að besta leiðin væri að fara með þetta fyrir dómstóla. Stjórnvöld hafa ákveðið að gera ekkert í því máli en sem komið er alla vega. Við höfum líka bent á, og höfum Evu Joly okkur til stuðnings í því, að það er full ástæða til þess að það fari fram sakamálarannsókn á þessu máli öllu. Þá á ég ekki bara á sölunni til Magma heldur á einkavæðingarferlinu á HS Orku í heild sinni," segir Jón.

Jón kveðst bjartsýnn á að krafa þeirra sem skrifað hafa undir áskorun til stjórnvalda verði tekin til greina. Hann segist þó ekki vita hvaða leið forsætisráðherra telur best til þess fallna að tryggja ríkinu eignarhald á HS Orku en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur boðað Jón og félaga á fund í næstu viku.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×