Innlent

Icelandair sakfellt fyrir samkeppnisbrot en sleppur við sekt

Icelandair.
Icelandair.
Héraðsdómur staðfesti í dag þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Icelandair hafi verið í markaðsráðandi stöðu og misnotað hana með kynningu á svokölluðum Netsmellum á árinu 2004.

Héraðsdómur taldi hins vegar brotin ekki eins alvarleg og lagt var til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar og felldi úr gildi sektarákvörðun áfrýjunarnefndar sem hljóðaði upp á 130 milljónir króna.

Með framangreindum dómi kemst Héraðsdómur að sömu efnisniðurstöðu og í fyrri dómi frá 2. febrúar 2010, en Hæstiréttur ómerkti þann dóm þar sem of langur tími leið á milli aðalmeðferðar í málinu og dómsuppsögu. Fór því málflutningur fram að nýju.

Samkeppniseftirlitið mun áfrýja dóminum til Hæstaréttar eins og hinum fyrri og m.a. láta reyna á réttmæti þess að fella niður sektir á Icelandair.

Það var Í júní 2007 sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti  ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þess efnis að með kynningu og sölu á flugfargjöldum, svokölluðum Netsmellum að upphæð 16.900 kr., sem stóðu viðskiptavinum Icelandair ehf., til boða á árinu 2004 á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og á flugleiðinni milli Keflavíkur og London hins vegar, hafi félagið misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn samkeppnislögum.

Var Icelandair gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 130 milljónir króna í ríkissjóð. Icelandair skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla, sbr. umfjöllun hér að framan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×