Innlent

Hugnast ekki hugmyndin um stjórnlagaráð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins.
Birki Jóni Jónssyni, varaformanni Framsóknarflokksins hugnast ekki hugmyndin um að skipa sérstakt stjórnlagaráð til að endurskoða stjórnarskrána. Hann segir margvíslegar ástæður vera fyrir afstöðu sinni.

„Meðal annars athugasemdir margra af okkar færustu lögspekingum. Ég hef líka frá upphafi að ég heyrði þessa hugmynd haft fyrirvara á því hvernig við munum líta út gagnvart alþjóðasamfélaginu. Ég hugsa að ef þessi vinnubrögð yrðu viðhöfð í einhverju öðru landi þá hefðu einhverjir hér hneykslast á þeirri hugmynd," segir Birkir Jón. Hann geti því með engu móti stutt þessa hugmynd. Birkir Jón segir að skiptar skoðanir séu í þingflokki framsóknarmanna um málið eins og í öðrum þingflokkum.

Birkir Jón segir að ályktun Framsóknarflokksins mæli um það að stjórnlagaþing verði haldið. „En ef við eigum að læra eitthvað af slæmum vinnubrögðum, bæði mistökum sem hafa verið gerð í lagasetningu út af stjórnlagaþingi, framkvæmd kosninganna, og vegna þess að við erum að ræða um slíkt grundvallarrit sem íslenska stjórnarskráin er, þá tel ég að við þurfum að skoða þessi mál með vel ígrunduðum hætti," segir Birkir Jón. Hann telur því að menn þurfi að vanda vel til verka, gefa sér tíma og halda svo stjórnlagaþing að undangengnum kosningum, en ekki klára málið í andarteppustíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×