Innlent

Jóhanna: Þingmenn flytja frumvarp um stjórnlagaráð

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að þingsályktunartillaga um skipun 25 manna í stjórnlagaráð verði flutt af þingmönnum á Alþingi en ekki sem frumvarp ríkisstjórnarinnar. Það hafi aldrei staðið til. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lýsti því yfir í morgun að hann væri andvígur þessari leið. Jóhanna segir að Ögmundur muni þó ekki greiða atkvæði gegn tillögunni.

Jóhanna benti á að loknum ríkisstjórnarfundi að mikill meirihluti nefndarinnar sem falið var að klára stjórnlagaþingsmálið hafi lagt til að þessi leið yrði farin, að þeir sem náðu kosningu til stjórnlagaþings verði skipaðir í ráðið. Fari svo að einhver þeirra vilji ekki taka þátt í vinnunni verður leitað til þeirra sem næstir voru inn í kosningunni.

Jóhanna segir að komið hafi til greina að kjósa að nýju á stjórnlagaþing. „En það eru ýmsir sem telja að það sé ekki skynsamlegt að blanda henni inn í kosningar um Icesave þannig að þetta er niðurstaða og ég tel hana vel ásættanlega."

Aðspurð segist Jóhanna ekki telja að með þessu sé verið að fara á svig við dóm Hæstaréttar, sem ógilti kosninguna. „Við fengum þetta verkefni í fangið eftir að hæstiréttur ógilti kosninguna og það er auðvitað verkefni að leysa það. Það er búið að fullnusta dóminn með því að ógilda kosningu þessara einstaklinga," segir Jóhanna og bætir við að væntanlega verði flutt frumvarp samhliða tillögunni um að afnema lögin um stjórnlagaþing og að þannig verði dómur Hæstaréttar fullnustaður.

„Það hefur enginn véfengt niðurstöðuna og við erum bara að ganga til verka, miðað við það sem við stóðum frammi fyrir."

Jóhanna var einnig spurð hvort ekki væri óheppilegt að ríkisstjórnin skuli ekki vera samstíga í málinu í ljósi afstöðu Ögmundar. „Ögmundur hefur sagt sína skoðun í þessu máli. Hann mun ekki greiða atkvæði á móti þessari tillögu ef hún kemur fram á Alþingi þó að hann vilji ekki standa að henni. Enda hefur það ekki staðið til að það verði ríkisstjórnin sem flytti þetta mál heldur hefur verið rætt um að þetta verði þingmannatillaga."

Jóhanna segir að verið sé að skoða hvort þeir þingmenn sem sátu í nefndinni beri tillöguna upp og mögulega einhverjir fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×