Innlent

Tími einkarekinna meðferðarheimila liðinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu, segir að skýrlsan sé um margt lærdómsrík.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu, segir að skýrlsan sé um margt lærdómsrík.
Það er ekki tilefni til þess að vera bjartsýnn á framhald á rekstri einkarekinna meðferðarheimila, segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Þetta fullyrðir hann eftir að hafa kynnt sér skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur meðferðarheimila á liðnum árum. Skýrslan var birt í gær

„Það kemur til af margvíslegum ástæðum. Árbótarmálið er eitt þeirra. Líka þau sjónarmið sem eru viðruð viðvíkjandi Torfastaði og Götusmiðjuna. svo og afstaða Ríkisendurskoðunar viðvíkjandi það að það eigi að setja reglur um svo margt sem lítur að samningum sem ég held að geti ekki gengið upp í framkvæmd," segir Bragi. Hann segir að grundvallarhugmyndin að baki þjónustusamningum byggi á samningsfrelsi og með því að reglugera samningsfrelsið með þeim hætti sem lagt sé til grundvallar í umfjöllun skýrslunnar sé í raun búið að afnema samningafrelsið. Bragi bendir jafnframt á að pólitísk afskipti séu gjarnan í málum einkareknu meðferðarheimilanna. „Þetta tvennt held ég að geri það að verkum að ég er mjög svartsýnn á að það verði um frekari tilraunir að ræða," segir Bragi. Hann tekur þó skýrt fram að það sé ráðherra að ákveða endanlega hvernig staðið er að þessum málum. Barnaverndarstofa geti hins vegar veitt leiðsögn og haft sínar skoðanir á málunum.

Niðurstaðan varðandi Árbót kom ekki á óvart

Stutt er síðan að nýtt meðferðarheimili var opnað á vegum Barnaverndarstofu að Geldingalæk. Ákveðið var að hafa það heimili ríkisrekið í stað þess að semja við einkaaðila um rekstur þess. En þá standa eftir tvö einkarekin meðferðarheimili. „Ég held að það verði svona ákveðin óvissa um rekstrarform þeirra í framtíðinni en auðvitað stöndum við við þá samninga sem hafa verið gerðir," segir Bragi.

Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu í skýrslunni sem birt var í gær að málefnaleg rök hafi skort fyrir 30 milljón króna uppgjörsgreiðslu til rekstraraðila meðferðarheimilisins Árbótar í Aðaldal. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra sömdu um greiðslurnar gegn vilja Barnaverndarstofu. „Það er ekkert í því sem kemur mér á óvart. Það er í samræmi við þau sjónarmið sem Barnaverndastofa hélt fram í málinu," segir Bragi, sem telur að úttektin í heild sé gagnleg og að mörgu leyti lærdómsrík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×