Innlent

Landsvirkjun bíður með boranir í Gjástykki

Iðnaðarráðherra segir ríkisstjórnina einhuga um að friðlýsa Gjástykki. Heimamenn benda á að fyrir liggi staðfest skipulag um að svæðið verði tekið undir orkuvinnslu. Landsvirkjun hugðist hefja boranir þar í sumar, í samræmi við rannsóknarleyfi sem Orkustofnun veitti í gær, en hefur nú ákveðið að halda að sér höndum.

Gjástykki er eitt fjögurra háhitasvæða í Þingeyjarsýslum sem Landsvirkjun hefur áformað að virkja og áætlar að það geti staðið undir álíka stórri virkjun og nú er í Kröflu. Svæðisskipulag, sem sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur standa saman að, gerir ráð fyrir að Gjástykki verði tekið til orkuvinnslu og var það staðfest af Þórunni Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra, fyrir þremur árum.

Í samræmi við þessi áform sótti Landsvirkjun um heimild í fyrrasumar til að bora þrjár rannsóknarholur. Leyfið veitti Orkustofnun í gær, í andstöðu við vilja Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, sem brást hart við í dag og sagði leyfisveitinguna stóralvarlega, enda vildi ríkissstjórnin friðlýsa svæðið.

Orkustofnun heyrir undir iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur. Hún segir engan ágreining í ríkisstjórninni, sem hafi samþykkt að hefja friðlýsingarferli á Gjástykki. Það þýði að búið sé að samþykkja að umhverfisráðuneytið fari í viðræður við viðkomandi sveitarfélög og landeigendur. Ríkisstjórnin standi einhuga að baki þessu ferli.

Á Húsavík lýsir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, ánægju með rannsóknarleyfið enda gefi það vonir um að orkupakkinn stækki, verði niðurstöður jákvæðar. Hann bendir á að niðurstaða liggi þegar fyrir um að taka Gjástykki til orkuvinnslu með staðfestu svæðisskipulagi.

Samkvæmt leyfisumsókn Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að hefja boranir þar þegar í sumar. Það verður hins vegar ekki, að sögn Harðar Arnarsonar forstjóra. Landsvirkjun muni vinna á hinum svæðunum á Norðausturlandi, Bjarnarflagi, Kröflu og Þeistareykjum, en ekki sé gert ráð fyrir að vinna neitt í Gjástykki.

„Enda er það yfirlýst stefna okkar að vinna í sátt við stjórnvöld," segir Hörður og vísar til áforma um að friðlýsa svæðið. Á meðan verði ekki lagt út í umtalsverðar fjárfestingar á svæðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×