Innlent

Ákvörðun Orkustofnunar stóralvarleg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir gagnrýnir stjórnsýslu Orkustofnunar harðlega. Mynd/ Valli.
Svandís Svavarsdóttir gagnrýnir stjórnsýslu Orkustofnunar harðlega. Mynd/ Valli.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að það sé stóralvarlegt mál að Orkustofnun ákveði að hundsa andmæli sín og tveggja virtra stofnana á sviði náttúruverndar. Orkustofnun hefur veitt Landsvirkjun leyfi til rannsóknarborana í Gjástykki í Þingeyjarsýslum, í andstöðu við vilja umhverfisráðherra, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Hins vegar nýtur ákvörðunin stuðnings sveitarfélaga og landeigenda.

Svandís segir að ákvörðunin veki upp tvennskonar vangaveltur. „Annarsvegar er sú staðreynd að að baki umsagna Náttúruverndastofnunar og Umhverfisstofnunar liggja þung fræðileg náttúruverndarrök. Þarna gengur Orkustofnun svo langt að hundsa alveg þau rök," segir Svandís. Hún segir það algjörlega óásættanlegt að náttúruverndarök hafi ekki fengið að njóta neins vægis í úrvinnslu Orkustofnunar.

„Hitt er til viðbótar við þetta að það er skýr vilji stjórnvalda og eindreginn pólitískur vilji, sem hefur verið kynntur og samþykktur í ríkisstjórn, að friðlýsa þetta svæði. Það er óskiljanlegt með öllu hvernig undirstofnun eins ráðuneytis getur farið af stað með að leyfa rannsóknarboranir á svæði sem er inni í friðlýsingarferli," segir Svandís.

Svandís spyr hvers vegna Orkustofnun sé að leita eftir umsögnum ef það eigi ekkert að fara eftir þeim. „Ég kalla eftir mjög gagnrýnni umræðu um slíka stjórnsýslu Orkustofnunar sem gerði það að verkum að henni þykir eðlilegt að hundsa eindregin andmæli umhverfisráðherra og eindregin andmæli tveggja fagstofnana á sviði náttúruverndar," segir Svandís.

Svandís hefur ekki rætt málið við Katrínu Júlíusdóttir iðnaðarráðherra enda var fyrst greint frá málinu í dag. „Ég geri ráð fyrir að þetta beri á góma," sagði Svandís, aðspurð um það hvort hún hygðist ræða málið við iðnaðarráðherra.




Tengdar fréttir

Landsvirkjun fær leyfi til borana í Gjástykki

Orkustofnun hefur veitt Landsvirkjun leyfi til rannsóknarborana í Gjástykki í Þingeyjarsýslum, í andstöðu við vilja umhverfisráðherra, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar, en með stuðningi sveitarfélaga og landeigenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×