Innlent

Aðgengilegt um allan heim

Hægt er að skoða prentútgáfu Fréttablaðsins hálfan mánuð aftur í tímann. Hér má sjá Kjartan Sverrisson fletta síðum blaðsins. Fréttablaðið/Anton
Hægt er að skoða prentútgáfu Fréttablaðsins hálfan mánuð aftur í tímann. Hér má sjá Kjartan Sverrisson fletta síðum blaðsins. Fréttablaðið/Anton

Fréttablaðið hefur frá í gærmorgun verið aðgengilegt þeim sem nota nettengd tæki og tól á borð við iPhone-farsíma, iPad-spjaldtölvur og iPod Touch og hafa keypt áskrift að hugbúnaðinum PressReader. Forritið sníður dagblöð til fyrir nettengd tæki og líta þau eins út á skjá tækjanna og á pappírsformi.

Kjartan Sverrisson, deildarstjóri vefmiðla hjá 365 miðlum, segir þetta í samræmi við það sem gerist erlendis. „Nú erum við komin á markað með stóru strákunum, enda nú orðið jafn auðvelt að lesa Washington Post og Fréttablaðið."

Hugbúnað PressReader má nálgast í vefverslunum helstu tæknifyrirtækja heims, svo sem í AppStore Apple og Android Market Google. Spjaldtölvan Galaxy Tab frá Samsung kemur með uppsettum PressReader-hugbúnaði.

Ekkert kostar að ná í hugbúnaðinn en notkun á kerfinu er háð áskrift sem notandinn þarf að hafa. Þeir sem hafa sett upp PressReader-hnapp á tæki sitt og tölvu og hafa áskrift að notkun þess geta jafnframt því að lesa Fréttablaðið lesið þar öll heimsins dagblöð sem gert hafa samning við eiganda PressReader, tæknifyrirtækið Newspaper Direct.

Ekkert kostar aukalega að lesa önnur dagblöð hvort heldur er um að ræða áskriftarblöð eða fríblöð. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×