Innlent

Ætla að vekja athygli á skógunum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók við fána með merki alþjóðlegs árs skóga við athöfn á Bessastöðum í gær.Fréttablaðið/Vilhelm
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók við fána með merki alþjóðlegs árs skóga við athöfn á Bessastöðum í gær.Fréttablaðið/Vilhelm

Forystumenn í skógrækt á Íslandi afhentu í gær Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fána með merki alþjóðlegs árs skóga, sem nú er ný hafið.

Forsetinn fékk einnig blómavasa úr birki með tálguðum blómum úr víði segir Hulda Guðmundsdóttir skógarbóndi og talsmaður alþjóðlegs árs skóga á Íslandi. Hún segir að margt verði gert á árinu.

„Við sem erum að sinna skógrækt á landinu ætlum að snúa bökum saman og fræða almenning betur um skógana,“ segir Hulda. Sérstaklega verði hugað að því hvernig megi nýta betur þær afurðir sem þar verði til, og hvernig hægt sé að koma þeim á markað.

Meðal þess sem stendur til er að halda samkeppni um hönnun á duftkerjum úr íslensku timbri. „Það er mjög náttúrulegt að jarða ástvin í keri sem unnið er úr íslenskum trjágróðri,“ segir Hulda. Engin ástæða sé til þess að flytja inn erlend ker þegar hráefnið sé til staðar hér á landi.

Alþjóðlegt ár skóga 2011 er haldið vegna hvatningar Sameinuðu þjóðanna. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×