Innlent

Verður að taka mótmælin alvarlega

Fulltrúar FÍB afhentu Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra undirskriftirnar á stafrænu formi á litlum minnislykli í innanríkisráðuneytinu í gær.
Fréttablaðið/Vilhelm
Fulltrúar FÍB afhentu Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra undirskriftirnar á stafrænu formi á litlum minnislykli í innanríkisráðuneytinu í gær. Fréttablaðið/Vilhelm

Alls settu 41.524 einstaklingar nafn sitt við undirskriftasöfnun Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) þar sem vegtollum var mótmælt. Nafnalistinn var afhentur Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í gær.

„Skilaboðin eru mjög skýr, krafan er sú að það verði ekki teknir upp vegtollar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, eftir fund forsvarsmanna félagsins með Ögmundi.

„Að sjálfsögðu tökum við alvarlega þegar rúmlega 40 þúsund undirskriftir safnast á nokkrum dögum,“ sagði Ögmundur í samtali við Fréttablaðið eftir fundinn.

Hann benti þó á að menn verði að vera samkvæmir sjálfum sér. Tilgangurinn með vegtollum hafi verið sá að geta flýtt mikilvægum framkvæmdum, skapað störf og aukið öryggi vega. Ríkiskassinn sé tómur og þess vegna hafi verið áhugi á því að leita annarra leiða til að fá fé til framkvæmda.

„Nú er ég ekki maður vegtolla, en ég er maður flýtimeðferðar í vegamálum,“ segir Ögmundur. Í kjölfar óánægju verði að ræða þessi mál upp á nýtt.

Alls skrifuðu 41.524 nöfn sín með rafrænum hætti á undirskriftalista FÍB. Af þeim voru 40.787 á kosningaaldri, eða um 17,9 prósent af kosningabæru fólki í landinu.

Runólfur segir að farið hafi verið yfir hugmyndir FÍB um að leggja 2+1 veg í stað þess að tvöfalda Suðurlandsveginn til að spara fé og flýta framkvæmdum. Hann segir úrbætur á Suðurlandsveginum mikilvægasta verkefnið til að auka öryggi fólks í umferðinni, en aðrar framkvæmdir séu einnig aðkallandi.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×