Innlent

Spyr sýslumenn um túlkamál

Innanríkisráðuneytið hefur spurt sýslumannsembætti landsins út í verklagsreglur. Fréttablaðið/Stefán
Innanríkisráðuneytið hefur spurt sýslumannsembætti landsins út í verklagsreglur. Fréttablaðið/Stefán

Innanríkisráðuneytið hefur sent sýslumannsembættum um allt land fyrirspurn vegna túlkaþjónustu erlendra einstaklinga í málum sem embættin hafa til meðferðar.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum finnst konum af erlendum uppruna sem réttindi þeirra séu ekki nægilega varin, því sýslumenn telja sig ekki bera skyldu til þess að útvega þeim túlk.

Jafnvel þekkist dæmi um að eiginmenn erlendra kvenna túlki fyrir þær í málum tengdum skilnaði og forræði yfir börnum.

Af því tilefni óskar ráðuneytið eftir því að embættin upplýsi sem fyrst um fyrirkomulag þeirra vegna meðferðar mála sem tengjast erlendum einstaklingum.

Meðal annars er spurt hvort í þeim tilfellum, sem einstaklingi hafi verið gert að útvega sér túlk sjálfur, hafi verið gerðar kröfur um að túlkur sé ekki gagnaðili í viðkomandi máli.

Ráðuneytið veltir einnig upp þeirri spurningu hvernig sú stefna sýslumannsembætta, að útvega erlendum einstaklingum ekki túlkaþjónustu, samræmist stjórnsýslulögum sem kveði á um rétt málsaðila til andmæla og upplýsinga. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×