Innlent

Jón Bjarnason - verður kvótinn innkallaður?

Hafsteinn Hauksson skrifar

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, flutti ávarp á fundi á vegum Reykjavíkurfélaga Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í dag, undir yfirskriftinni Fiskurinn í þjóðareign.

Frummælendur fundarins voru þau Finnbogi Vikar, laganemi og fulltrúi í starfshópi um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og Elín Björg Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags fiskframleiðenda og útflytjenda.

Þau Finnbogi og Elín voru sammála um samningaleiðin svokallaða, sem starfshópurinn sameinaðist um, væri lítið annað en óskilgreint og óútfært hugtak yfir það að festa núverandi kvótakerfi í sessi. Jón sagði hins vegar að hugtökin sem menn nota yfir mismunandi leiðir skipti ekki máli, heldur markmiðin með breytingum á kvótakerfinu. Hann segir að frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé í vinnslu hjá sjávarútvegsráðuneytinu, en það verði lagt fram í febrúar.

Nokkur hiti var í fundarmönnum, en á fundinum var samþykkt ályktun þess efnis að skora á ríkisstjórnina að framfylgja hið fyrsta fyrirheiti samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Fundurinn telur brýnt að ekki verði látið undan þrýstingi sérhagsmunaaðila, og innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á allt að 20 árum sögð hófsöm leið.

Fréttastofa gekk á Jón varðandi innihald frumvarpsins sem senn verður lagt fram, en Jón gaf ekki skýr svör um það hvort kvótinn verði innkallaður. Viðtalið fylgir hér með í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×