Innlent

Fjölskyldan þakkar hlýhug

Pétur Kristján Guðmundsson er á batavegi, samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu hans.
Pétur Kristján Guðmundsson er á batavegi, samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu hans. Mynd/Stuðningssíða Péturs á Facebook
Líðan Péturs Kristjáns Guðmundssonar, sem slasaðist þegar hann féll fram af bjargi í Austurríki á nýársnótt og skaddaðist alvarlega á mænu, er stöðug og er hann á batavegi, samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu hans. Vonir standa til að Pétur geti komist heim til Íslands sem fyrst.

Pétur Kristján var á göngu í fjallshlíð með félaga sínum eftir að hafa fylgst með flugeldasýningu þegar hann féll fram af hengju. Pétur Kristján hlaut við fallið mænuskaða og er lamaður fyrir neðan mitti.

Faðir Péturs, Guðmundur Geir Sigurðsson, sagði í samtali við Vísi nokkrum dögum eftir slysið að hann hafi ekki gert sér grein fyrir alvarleika slyssins þegar fréttir af því bárust. „Maður lifir í þeirri trú að þetta verði allt í lagi þar til fréttirnar segja manni annað. Þetta er náttúrulega bara hrikalegt áfall. Líka fyrir hans hönd. Hann er bara 24 ára gamall," sagði Guðmundur Geir 5. janúar.

Fjölskylda og aðstandendur Péturs Kristjáns vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem sýnt hafa Pétri hlýhug og stuðning með einum eða öðrum þætti.

„Í ljósi alvarleika slyssins hafa margir óskað eftir að fá að leggja honum lið í formi fjárstuðnings. Þeim viljum við benda á að hægt er að leggja inn á reikning Péturs, nr. 0319-13-301627, kt. 250386-6059.

Pétur ólst upp á Flúðum í Hrunamannahreppi, og hefur kvenfélag hreppsins ákveðið að láta ágóða af þorrablóti félagssins renna óskiptan til hans. Eru Pétur og aðstandendur mjög þakklátir fyrir það framlag," segir í tilkynningu frá fjölskyldu Péturs.

Hægt er að fara á stuðningssíðu Péturs Kristjáns hér.


Tengdar fréttir

Sonurinn lamaður fyrir neðan mitti - „Hrikalegt áfall“

Íslenskur karlmaður liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi í Innsbruck í Austurríki eftir að hafa lent í slysi á gamlárskvöld. Maðurinn heitir Pétur Kristján Guðmundsson og er 24 ára gamall. Hann var á göngu í fjallshlíð með félaga sínum eftir að hafa fylgst með flugeldasýningu þegar hann féll fram af hengju. Pétur Kristján hlaut við fallið mænuskaða og er lamaður fyrir neðan mitti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×