Innlent

Heitt vatn komið á í Neðra-Breiðholti

Heitt vatn er nú komið á í þeim hluta Bakkahverfisins í neðra Breiðholti, sem verið hefur heitavatnslaus frá í nótt. Taka þarf vatnið aftur af síðar í dag, þegar gert verður við lögn sem bilaði.

Háspennubilun sem varð í rafdreifikerfinu í Kópavogi í gærkvöldi virðist hafa leitt til þrýstingssveiflna í dreifikerfi heitavatnsins, sem að verulegu leyti er drifið áfram með rafknúnum dælum.

Önnur aðalæð heitavatnsflutnings til suðurhluta höfuðborgarsvæðisins brast í Mjóddinni, rétt við Garðheima, laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi.

Vinnuflokkar Orkuveitu Reykjavíkur tengdu framhjá þeirri bilun og á allsstaðar að vera nægt vatn. Skömmu síðar virðist sveifla í þrýstingi hafa rofið aðra æð þar í grenndinni sem sér íbúum neðsta hluta Neðra Breiðholts, í raðhúsum við Bakka, og húsum í Mjódd fyrir heitu vatni.

Bráðabirgðaviðgerð lauk á tíunda tímanum í morgun. Upp úr hádegi munu vinnuflokkar leitast við að ljúka viðgerðinni og þarf þá að taka vatnið af að nýju.

Viðgerð getur tekið nokkrar klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×