Innlent

Forsetinn skaut skvassbolta í ljósmyndara Fréttablaðsins

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson sýndi gamla takta. Árangurinn reyndist stórhættulegur fyrir ljósmyndarann.
Ólafur Ragnar Grímsson sýndi gamla takta. Árangurinn reyndist stórhættulegur fyrir ljósmyndarann. Mynd / Pjetur Sigurðsson

„Hann þóttist nú vera liðtækur. Hann sagði okkur að hann hefði spilað fyrir um fjörtíu árum síðan," segir Hafsteinn Daníelsson, eigandi Veggsports, um forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem reyndi fyrir sér í skvassi í hádeginu í dag.

Ólafur virtist nokkuð ryðgaður í skvassinu enda byrjaði hann á því að skjóta boltanum beint í ljósmyndara Fréttablaðsins, Pjetur Sigurðsson, sem tók meðfylgjandi mynd.

Ástæðan fyrir því að Ólafur rifjaði upp gamla takta er söfnun Veggsports fyrir Umhyggju en hátt í 200 manns hafa spilað Skvass síðan klukkan fjögur í gærdag. Allir sem spila eru með púlsmæla sem halda því til haga hversu margar hitaeiningar spilararnir missa á meðan þeir spila skvass, en íþróttin reynir gríðarlega á hið líkamlega form.

„Þegar ég gáði síðast þá vorum við komin í 110 þúsund hitaeiningar," sagði Hafsteinn en fjölmörg fyrirtækin hafa heitið að greiða krónu fyrir hverja hitaeiningu sem hverfur. Takmark Hafsteins er að ná milljón krónum sem rennur þá til langveikra barna í gegnum samtökin Umhyggju, en Ólafur Ragnar er verndari þeirra.

Hafsteinn segir átakið í raun tilkomið vegna þess að landsliðið þurfti að æfa sig fyrir Smáþjóðaleikana sem verða haldnir í Liechtenstein í ár.

Ólafur Ragnar sagði í hádeginu í dag að hann hefði spilað skvass fyrir um fjörtíu árum í London. Þegar Hafsteinn er spurður hvernig forsetinn hefði staðið sig svaraði hann: „Eigum við ekki bara segja að hann hafi sýnt gamla takta."

Pjetur ljósmyndari kveinkaði sér ekki undan óhappinu þegar við hann var rætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×