Innlent

Ráðist í skammtímaaðgerðir meðan frekari skoðun fer fram

Þessi voru á leið upp í strætisvagn númer 51 sem gengur til Hveragerðis og Selfoss þegar ljósmyndara bar að garði í Mjódd í Reykjavík í gær. Í tillögum um bættar almenningssamgöngur segir að auka þurfi hraða og tíðni ferða, auk þess sem lækka þurfi verð fargjalda.Fréttablaðið/GVA
Þessi voru á leið upp í strætisvagn númer 51 sem gengur til Hveragerðis og Selfoss þegar ljósmyndara bar að garði í Mjódd í Reykjavík í gær. Í tillögum um bættar almenningssamgöngur segir að auka þurfi hraða og tíðni ferða, auk þess sem lækka þurfi verð fargjalda.Fréttablaðið/GVA

Fela á sveitarfélögum í auknum mæli framkvæmd almenningssamgangna samkvæmt hugmyndum í nýrri úttekt innanríkisráðuneytisins. Framtíðarstefnumótun almenningssamgangna í tengslum við samgönguáætlun til tólf ára verður lögð fram í mars. Í nýbirtri skýrslu kemur fram að skortur á skipulagi og hátt verð fæli fólk frá almenningssamgöngum í einkabíla.

Unnið er að breyttu fyrirkomulagi almenningssamgangna í landinu. Að því er fram kemur hjá innanríkisráðuneytinu nær sú vinna til skipulags samgangnanna og styrkveitinga til þeirra. Í gögnum ráðuneytisins kemur fram að undanfarin ár hafi nýting almenningssamgangna verið bágborin í meira lagi. Þannig séu að jafnaði færri en þrír farþegar á ferð á 26 af 36 styrktum sérleiðum hópferðabíla og innan við einn á 10 leiðum.

Sömuleiðis kemur fram að nýting á styrktum flug- og ferjuleiðum sé langt undir flutningsgetu.

Ráðuneytið hefur birt tvær skýrslur um almenningssamgöngur. Annars vegar er það skýrsla starfshóps ráðuneytisins og Vegagerðarinnar frá því í september í fyrra og hins vegar skýrsla frá því í maí 2010 sem er afrakstur funda samgönguráðs með svæðasamtökum sveitarfélaga um almenningssamgöngur.

Með birtingu skýrslnanna upplýsir innanríkisráðuneytið um stöðu og stefnu þeirrar vinnu sem hafin var á vettvangi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í málaflokki almenningssamgangna, en hún er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í hittifyrra. Þar er kveðið á um að á kjörtímabilinu eigi að vinna áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. „Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.

Fram kemur í frétt ráðuneytisins að unnið hafi verið að nýrri stefnu almenningssamgangna á tveimur sviðum. „Annars vegar hefur samgönguráð unnið að framtíðarstefnumótun almenningssamgangna í tengslum við samgönguáætlun til 12 ára sem lögð verður fram í mars 2011. Hins vegar hefur starfshópur ráðuneytisins og Vegagerðarinnar mótað hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi ríkisstyrkja til almenningssamgangna, sem eru aðallega samgöngur í dreifbýli og á milli landshluta og/eða sveitarfélaga.“

Bara einn ferðamáti styrktur
Herjólfur Í tillögum starfshóps innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar segir að ferjusiglingar til Vestmannaeyja verði boðnar út á ný á öðrum fjórðungi þessa árs þegar reynsla sé komin á nýja siglingaleið í Bakkafjöru. Huga þurfi að fargjaldahækkunum á leiðinni til þess að hún verði líklegri til að geta staðið undir sér.Fréttablaðið/Stefán

Skoðun starfshóps ráðuneytisins og Vegagerðarinnar er að léleg nýting almenningssamgangna hér á landi skrifist að hluta til á skipulagsleysi, skort á samhæfingu og takmarkað upplýsingaflæði. Auk þess sé verð þjónustunnar svo hátt að einkabíll sé í mörgum tilvikum vænlegri kostur. Starfshópurinn leggur til að þar sem stjórnvöld styrki almenningssamgöngur á vegum verði gjaldtaka ekki hærri en svo að hún verði undir eldsneytiskostnaði einkabíls.

„Verðlagning í fólksflutningum á landi hefur verið með þeim hætti að hún er ekki líkleg til að fjölga farþegum í þeim ferðamáta,“ segir í skýrslu starfshópsins og bent er á að opinber afskipti af verðlagningu í formi hámarksverðs í útboðum hafi í reynd leitt til þess að það hafi orðið viðmiðunarverðið. „Eins og staðan er þá er í mörgum tilvikum ódýrara að ferðast einn í eigin bíl, ef aðeins er horft til eldsneytisverðs, en að taka rútu. Þetta er ekki líklegt til að fjölga farþegum, þessu þarf að breyta.“

Eins er bent á að skort hafi á að hægt sé að kaupa samsett far á milli staða. Þá gæti farþegi keypt far frá fleiri en einum rekstraraðila og greitt eitt gjald. „Þannig getur fargjald á einni leið, til dæmis Ísafjörður-Reykjavík eða Þórshöfn-Reykjavík, orðið óeðlilega hátt þegar ferðin er samsett af tveimur eða fleiri rekstraraðilum á leiðinni. Koma þarf á samræmdu kerfi þar sem farþeginn greiði eitt fargjald óháð rekstraraðila eða uppgjöri þeirra á milli.“

Meðal annarra tillagna í skýrslu starfshóps innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar er svo að ekki verði styrktir fleiri en einn ferðamáti á hvern stað. Það leiði enda til óhagkvæmni og samkeppni milli tveggja styrktra samgöngumáta. Þá lagði starfshópurinn til að fallið yrði frá sérleyfum frá og með síðustu áramótum.

Þá segir í skýrslu starfshópsins að endurskoða þurfi fyrirkomulag skatta og styrkja í almenningssamgöngum. Leggja eigi niður olíugjald og taka upp beina styrki til samtaka sveitarfélaga sem taki mið af íbúafjölda eða eknum kílómetrum á þjónustuleiðum. Um leið þurfi að rétta hlut strætó í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði með niðurfellingu á virðisaukaskatti.

Fallið frá sérleyfum 2012

Í frétt innanríkisráðuneytisins kemur fram að skýrslan hafi verið þar til skoðunar og að fundað hafi verið með höfundum hennar og starfsmönnum Vegagerðarinnar.

„Ljóst er að hér er um tímabærar tillögur að ræða og margar gagnlegar ábendingar um hvernig má nýta betur fjármuni og vinna að markmiði um bættar almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í frétt ráðuneytisins. Þar kemur jafnframt fram að gert sé ráð fyrir að sveitarfélögum verði í auknum mæli falin framkvæmd almenningssamgangna og að komið verði upp samgöngumiðstöðvum sem þjóni ákveðnum svæðum, líkt og starfshópurinn hafi lagt til. Um leið segir að niðurstaða ráðuneytisins hafi verið að of skammur fyrirvari hafi verið til að falla frá sérleyfum um áramótin og lagt til að Vegagerðin framlengdi tímabundið, eða lengst út þetta ár, þá samninga sem lausir væru fyrir eða um áramót.

Í millitíðinni ætlar ráðuneytið að grípa til skammtímaaðgerða meðan áfram sé unnið að úrbótum í almenningssamgöngum samkvæmt þeim markmiðum sem fram hafi komið. „Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að þegar verði tillögur starfshópsins mótaðar frekar. Megináhersla verði í því sambandi á viðræður við landshlutasamtök sveitarfélaga með það að markmiði að þau taki að sér aukið hlutverk varðandi skipulag og rekstur almenningssamgangna sem ríkið hefur styrkt. Stefna ber að því að gera langtímasamninga við landshlutasamtökin (byggðasamlög) um yfirtöku umræddra verkefna í síðasta lagi frá ársbyrjun 2012 og fjármögnun verkefna,“ segir í umfjöllun innanríkisráðuneytisins. Um leið á að kanna hvernig hægt sé að þróa hugmyndir um þjónustu- og upplýsingaborð fyrir farþega, auk annarrar endurskipulagningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×